Sport

Michael Schumacher úr dái

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Michael Schumacher.
Michael Schumacher. Vísir/Getty
Ökuþórinn Michael Schumacher hefur yfirgefið sjúkrahús í Grenoble og er vaknaður úr dái. Fjölskylda Þjóðverjans þakkar öllum þeim sem hafa stutt við bakið á þeim undanfarið hálft ár. BBC greinir frá.

Þjóðverjinn 45 ára verður áfram í meðhöndlun á ónefndri sjúkrastofnun kemur fram í tilkynningu frá fjölskyldunni. Schumacher slasaðist alvarlega á höfði á skíðum í frönsku ölpunum þann 29. desember. Ekkert kemur fram um ástand Schumacher annað en að hann sé vaknaður úr dái.

Fjölskylda Schumacher þakkar öllum þeim sem sent hafa skilaboð og batakveðjur á þessum erfiðu tímum.

„Við erum sannfærð um að það hjálpaði honum,“ segir í tilkynningunni.

Fjölskyldan hrósaði einnig sjúkrastarfsmönnum í Suðaustur-Frakklandi. Læknar hafa haldið Schumacher sofandi til að minnka bólgur í heila Þjóðverjans.

„Michael hefur yfirgefið CHU Grenoble til að halda áfram umfangsmikilli endurhæfingu. Hann er úr dái,“ sagði Sabine Kehm, talsmaður Schumacher, fyrir hönd fjölskyldunnar í dag.

„Við óskum eftir því að framhald endurhæfingar hans geti farið fram fjarri kastljósi fjölmiðla,“ sagði Kehm. Ekki kom fram á hvaða sjúkrastofnun Þjóðverjinn verður vistaður á.

Schumacher hætti keppni í Formúlu 1 árið 2012 eftir nítján ára feril. Hann varð tvívegis heimsmeistari með Benetton, árið 1994 og 1995, áður en hann skipti yfir í Ferrari. Hann varð heimsmeistari fimm ár í röð frá árinu 2000.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×