Innlent

Flatarmál hraunsins samsvarar Reykjavík vestan Ártúnsbrekku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skyggði hlutinn af Reykjavík er um 18,6 ferkílómetrar.
Skyggði hlutinn af Reykjavík er um 18,6 ferkílómetrar. Vísir/Grafík/Jarðvísindastofnun HÍ
Þorvaldur Þórðarson eldfjallasérfræðingur og teymi hans á gosstöðvunum við Holuhraun segja lengd hraunsins frá Syðra að hraunjaðri í norðaustri nú vera 14,5 kílómetrar. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Flatarmál hraunsins síðdegis í gær var orðið 18,6 ferkílómetrar og er þar með talið hraunið frá syðri sprungunni. Hraunið hefur lengst um 420 metrar til norðausturs frá því síðdegis í gær.

Svæðið sem hraunið þekur, 18,6 ferkílómetrar, svarar til þess svæðis Reykjavíkur sem er vestan Ártúnsbrekku líkt og sjá má á myndinni að ofan.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands í morgun er hraungosið enn í kröftugum gangi en heldur virðist hafa dregið úr skjálftavirkni á svæðinu. Jarðskjálftavirknin síðan á miðnætti hefur aðallega verið á norðurhluta gangsins, það er að segja inn undir og út fyrir, jaðar Dyngjujökuls og síðan við sjálfa Bárðarbungu.

Skjálftum hefur heldur fækkað miðað við síðastliðna sólarhringa að því er fram kemur í skeyti frá Veðurstofunni. Á fjórða tug skjálfta hafa verið staðsettir á umbrotasvæðinu síðan á miðnætti, enginn þeirra stór, að því er segir í skeyti frá veðurstofu.

Síðasti skjálftinn sem fór yfir þrjú stig kom á tólfta tímanum í gærkvöldi.  Óróinn hefur verið stöðugur síðan í gærkvöld og gos virðist stöðugt af vefmyndavélum Mílu að dæma.


Tengdar fréttir

Dregur úr skjálftavirkni en gosið er stöðugt

Hraungosið í Holuhrauni er enn í kröftugum gangi en heldur virðist hafa dregið úr skjálftavirkni á svæðinu. Jarðskjálftavirknin síðan á miðnætti hefur aðallega verið á norðurhluta gangsins, það er að segja inn undir og út fyrir, jaðar Dyngjujökuls og síðan við sjálfa Bárðarbungu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.