Innlent

Orka náttúrunnar tekur við virkjunum OR

Svavar Hávarðsson skrifar
ON á nú og rekur jarðvarmavirkjanirnar á Hellisheiði og á Nesjavöllum og tvær vatnsaflsvirkjanir; Andakílsárvirkjun og Elliðaárstöð.
ON á nú og rekur jarðvarmavirkjanirnar á Hellisheiði og á Nesjavöllum og tvær vatnsaflsvirkjanir; Andakílsárvirkjun og Elliðaárstöð. fréttablaðið/Vilhelm
Orka náttúrunnar (ON), nýtt opinbert hlutafélag í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, tekur í dag við rekstri virkjana Orkuveitunnar og allri raforkusölu fyrirtækisins. Fyrirtækið er sett á fót til að uppfylla ákvæði raforkulaga um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi.

Veituþjónustan – vatnsveita, hitaveita, fráveita og dreifing rafmagns verður áfram rekin undir merki Orkuveitu Reykjavíkur. Orka náttúrunnar verður hins vegar næststærsti raforkuframleiðandi á landinu og það sölufyrirtæki rafmagns sem hefur flesta viðskiptavini – eða 75 þúsund talsins.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir það hafa staðið til um nokkurt skeið að skipta Orkuveitunni upp með þessum hætti. Hins vegar hafi því verið frestað árið 2011 að beiðni eigenda. Þá hafi ekki verið talið tímabært að ráðast í verkefnið vegna fjárhagsstöðu OR. Fjárhagsstaðan sé hins vegar öll önnur og betri nú og OR því ágætlega í stakk búin að skilja að sérleyfis- og samkeppnishluta starfseminnar eins og lög krefjast.

Bjarni segir jafnframt að engar uppsagnir starfsfólks fylgi breytingunni; helst þurfi að ráða í nokkrar stöður hjá ON. Spurður um kostnað við aðskilnaðinn segir Bjarni hann óverulegan.

Bjarni segir að grunntónn raforkulaganna frá 2002 sé að vernda sérleyfishluta starfseminnar. „Í stuttu máli er hugmyndin sú með því að hafa samkeppnishlutann alveg sjálfstæðan, þá sé útilokað að samkeppnishlutinn geti misnotað aðstöðuna til að greiða niður kostnað af raforkusölu, og þar með skekkt samkeppnisstöðuna. „Þannig getur samkeppnisfélagið ekki seilst í vasa sérleyfisteknanna.“

Hvort beri að skoða þessa aðgerð í ljósi þeirrar gagnrýni sem er uppi varðandi sölu á hlutum í HS Veitum segir Bjarni þetta ekki skipta máli hvað varðar aðgengi einkaaðila. Þvert á móti reyndar. „Félögin eru bæði opinber hlutafélög, ekki hlutafélög. Í lögum um opinber hlutafélög segir að þar megi eignarhald einkaaðila ekki sjást með neinum hætti.“

Páll Erland

Framkvæmdastjóri og stjórn

Framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar er Páll Erland. Hann lauk MBA-prófi frá Rockford College Graduate School í Bandaríkjunum árið 1996.  Páll hefur unnið hjá Orkuveitunni frá árinu 2001. Hann var framkvæmdastjóri Veitusviðs í sjö ár áður en hann tók við sem framkvæmdastjóri Virkjana og sölusviðs Orkuveitunnar, undanfara Orku náttúrunnar, í lok árs 2012.

Stjórn Orku náttúrunnar skipa; Ingvar Stefánsson fjármálastjóri Orkuveitunnar, sem er formaður, Sveinbjörn Björnsson eðlisfræðingur og fyrrverandi Háskólarektor, Elín Smáradóttir lögfræðingur Orkuveitunnar, Ágúst Þorbjörnsson hagverkfræðingur og Hildigunnur H. Thorsteinsson framkvæmdastjóri Þróunar hjá Orkuveitunni.

Við skipan stjórnarinnar var litið til samvals þekkingar, að hlutfall kynja væri sem jafnast og þeirrar stefnu eigenda að fulltrúar óháðir Orkuveitunni sitji í stjórnum dótturfélaga fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×