Innlent

Myndi flokka jólajógúrt sem sælgæti

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sykraðar mjólkurvörur, skyr og jógúrt voru til umræðu á Alþingi í dag. Jólajógúrtið er nú komið í búðir, en næringarfræðingur myndi óhikað flokka það sem sælgæti.

„Í þessum jógúrtum er sykurmagnið mjög mikið, eða um einn fimmti af orkugildi fæðunnar. Ég myndi segja að þetta væri falinn sykur, því þegar þú lest á næringargildið kemur hvergi fram að það sé sykur í vörunni.  Ég myndi ráðleggja fólki að lesa innihaldslýsingar vel. Ef að sykur er ofarlega í þeim þá er það merki um að það sé mikið magn sykurs í vörunni,“ segir Aníta Gústavsdóttir, næringarfræðingur.

Umræður um sykurmagn í mjólkurvörum hafa reglulega skotið upp kollinum síðustu misseri, en málið var tekið fyrir á Alþingi í dag. Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti áhyggjum af því magni sykurs sem settur væri í ýmsar mjólkurvörur. Margar þessar vörur eru  í ákaflega flottum og sölulegum umbúðum og telur Elín að þannig sé verið að leiða neytendur á villigötur.

„Í öllum vörum er mjólkursykur. Í þessum vörum sem verið er að vísa til er um helmingurinn af kolvetnunum mjólkursykur. Síðan er sett til viðbótar til þess að slá á sýrukeiminn sem óhjákvæmilega kemur við vinnsluna. Allir geta hins vegar fundið sykurlaust skyr, hreint skyr og hreina jógúrt úr okkar framleiðslu,“ segir Einar Sigurðsson, forstjóri MS.  Hann segir jólajógúrtið ekki vera hugsað sem morgunmat, heldur sé það rótgróin jólahefð fyrir þá sem vilja gera vel við sig.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×