Fótbolti

Nokkur hundruð sæti verða auð á Laugardalsvelli í kvöld

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Færri íslenskir stuðningsmenn komast að en vilja í Laugardalnum í kvöld.
Færri íslenskir stuðningsmenn komast að en vilja í Laugardalnum í kvöld. Fréttablaðið/Vilhelm
„Við funduðum með fulltrúum Króata í kvöld (gærkvöldi) og þeir eru tiltölulega rólegir yfir þessu,“ segir Víðir Reynisson, öryggisstjóri á Laugardalsvelli. Nokkur viðbúnaður hefur verið hjá Víði og félögum vegna mögulegrar komu fótboltabullna frá Króatíu á landsleikinn gegn Íslandi í kvöld.

„Það hefur oft gerst að miðalausir menn hafi mætt og verið til vandræða. Hvort það gerist skýrist ekki fyrr en rétt fyrir leik,“ segir Víðir. Reyni einhver að ryðjast inn eða klifra yfir girðingar verði bæði lögregla og öryggisverðir klár í slaginn.

Króatískum stuðningsmönnum eru ætluð tvö hólf í austurstúkunni sem hvort um sig rúmar 350 stuðningsmenn eða 700 manns samanlagt. Króatarnir fara inn um sér hlið, þurfa að framvísa vegabréfi með miðum sínum og mega ekki yfirgefa völlinn fyrr en í leikslok.

Víðir segir ljóst að stuðningsmennirnir verði töluvert færri en reiknað var með. Líklega ekki nema um helmingur. Því er ljóst að nokkur hundruð miða sem ætluð voru króatískum stuðningsmönnum verða ekki nýttir á morgun.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, sagði í samtali við Fréttablaðið í gærkvöldi að óskandi væri að miðarnir gætu farið til Íslendinga. Af öryggisástæðum væri það hins vegar því miður ekki mögulegt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.