Fótbolti

Króatíska liðið hefur verið í mikilli lægð

Stefán Árni Pálsson skrifar
Luka Modric og Mario Mandžukic og félagar í króatíska landsliðinu æfðu á Kópavogsvellinum í gær.
Luka Modric og Mario Mandžukic og félagar í króatíska landsliðinu æfðu á Kópavogsvellinum í gær. fréttablaðið/vilhelm
„Það fara allir fram á það í Króatíu að liðið fari nokkuð auðveldlega áfram,“ segir Frane Vulas, króatískur íþróttafréttamaður hjá blaðinu Slobodna Dalmacija í heimalandinu.

Króatar voru til að mynda í riðli með Belgíu og Serbíu í undankeppninni og byrjaði liðið stórkostlega. Undir lokin fór að halla undan fæti hjá liðinu og náði Króatía aðeins í eitt stig í síðustu fjórum leikjunum. Króatar rétt sluppu inn í umspilið og var þáverandi þjálfari liðsins Igor Štimac rekinn strax eftir riðlakeppnina og Niko Kovac tók við.

„Króatíska liðið hefur verið gjörsamlega úr takti í undanförnum leikjum og það var í raun nauðsynlegt að láta Štimac fara. Kovac er mjög hæfileikaríkur þjálfari en vissulega mjög ungur og vantar sennilega nokkra leiki í reynslubankann. Hann stóð sig vel með U-21 árs landslið Króata og lá því beint við að ráða hann.“

Þegar dregið var um það hvaða þjóðir myndu mætast í umspilinu vildu þær allar fá íslenska landsliðið.

„Það fögnuðu allir gríðarlega í Króatíu þegar ljóst var að við myndum mæta Íslendingum. Á blaði er Ísland veikasti andstæðingurinn en í raun verður þetta ekki auðvelt fyrir okkur Króata. Íslendingar hafa verið að spila vel að undanförnu á meðan króatíska liðið er í raun í lægð. Takist liðinu aftur á móti að komast á HM mun það breyta öllu og landslagið allt annað fyrir króatíska knattspyrnusambandið.“

Vulas hefur mikið álit á miðjumanninum Luka Modric og er á því að þegar Modric á góða leiki, þá spili landsliðið vel. Aftur á móti þegar Modric á slæman dag hrynur oft leikur króatíska landsliðsins.

„Þrír leikmenn mynda ákveðinn hrygg í króatíska landsliðinu og eru í raun mikilvægustu menn liðsins. Modric tengir liðið allt saman. Mandžukic er okkar hættulegasti leikmaður fram á við og svo er það Stipe Pletikosa sem er gríðarlega mikilvægur þessu liði en hann hefur oftar en ekki staðið sig vel í markinu. Josip Šimunic er einnig mikilvægur fyrir liðið í öftustu víglínu, mikill reynslubolti sem stjórnar vörninni vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×