Innan um aragrúa mynda af misgirnilegum en bráðhollum mat má á kassmerkinu #meistaram á Instagram sjá myndir af fólki takast á við óvenjuleg markmið, fjallgöngur, hjólreiða- og hlaupatúra og glerharðar líkamsræktaræfingar.
Þúsundþjalasmiðurinn Halldór Halldórsson einsetti sér að læra að geirnegla og sýnir árangurinn á gramminu, þá má sjá veður- og hlaupastjörnuna Elísabetu Margeirsdóttur hlaupa upp fjallshlíð, fyrirsætuna Eddu Pétursdóttur í Thailenskum bardagaíþróttum, Unni úr Popp og Kók á toppi Esjunnar með föður sínum og N1 forstjóranum Eggerti Guðmundssyni og þá sýnir gifdrottningin Berglind Festival að það er vel hægt að drekka vatn á föstudagskvöldi.
Það er deginum ljósara að það er hrikalegur andi í þátttakendum Meistaramánaðar á lokasprettinum.
Í næstu viku birtum við myndir frá síðustu viku Meistaramánaðar en þú getur merkt myndina þína með kassmerkinu #meistaram til að vera með.