Lífið

Óvíst hvort að Fast and the Furious haldi áfram

Óvíst er hvort að Vin Diesel og Tyrese Gibson muni halda áfram með Fast and the Furious myndirnar í kjölfar fráfalls Paul Walker, lengst til vinstri.
Óvíst er hvort að Vin Diesel og Tyrese Gibson muni halda áfram með Fast and the Furious myndirnar í kjölfar fráfalls Paul Walker, lengst til vinstri.
Óvissa ríkir um framtíð kvikmyndaseríunnar Fast and the Furious í kjölfar andláts Paul Walker um helgina. Stór hluti sjöundi myndarinnar í seríunni hefur verið festur á filmu en nú er ljóst að klára þarf tökur án Walker. Framleiðundur myndarinnar áttu símafund með James Wan leikstjóra myndarinnar um hugsanlegt framhald.

Málsmetandi menn innan Hollywood telja að þetta gæti orðið síðasta myndin í seríunni, hópurinn sem að henni standi sé samheldinn og í raun eins og fjölskylda og muni eiga í erfiðleikum með að komast yfir þennan hrikalega atburð helgarinnar.

James Wan lýsti því yfir á Twitter-síðu sinni að hann væri bugaður af sorg og „trúi ekki að þetta hafi gerst.“

Áður hefur gerst að leikarar hafi látið lífið áður en tökum á kvikmynd sem þeir eru að vinna af hafi verið lokið. Heath Ledger lést áður en tökum á mynd Terry Gilliam, The Imaginarium of Dr. Parnuss, var lokið. Jude Law, Colin Farrell og Johnny Depp léku allir í stað Ledger. Leikarinn Oliver Reed lést á sama tíma og tökur á stórmyndinni Gladiator stóðu yfir. Leikstjórinn Ridley Scott fór þá leið að láta tölvugera andlit Reed og setja það inn í mikilvæg atriði.

Paul Walker setti þessa mynd á Twitter-síðu sína daginn áður en hann lést.
Ljóst er að dauði Walker hefur haft mikil áhrif á marga. Aðdáendur hans hafa keppst við að senda kveðjur á samfélagsmiðla netsins. Fjöldi leikarar hefur tjáð sig opinberlega og lýst yfir sorg sinni. Samleikarar hans í Fast and the Furious myndunum hafa þar verið fremstir í flokki. 

Paul Walker var fæddur 12. september 1973. Hann átti eina dóttur, Meadow Rain sem er 14 ára gömul. Hún bjó með móður sinni fram til ársins 2011 þegar hún flutti til föður síns í Californiafylki. Walker var með háskólagráðu í sjávarlíffræði og var það hans helsta áhugamál. Hann var í stjórn verndarsamtaka sverðfiska og tók þátt í gerð þáttaraðar fyrir National Geographic um hákarla.

Hann hóf leiklistarferil sinn ungur, hann lék í auglýsingu fyrir bleiuframleiðandann Pampers tveggja ára að aldri. Hann hóf að leika í sjónvarpsþáttum árið 1985 og lék í sinni fyrstu kvikmynd árið 1986. Ferill hans tók stakkaskiptum þegar hann lék í fyrstu myndinni í Fast and the Furious seríunni. Hann lék í fjölda stórmynda á borð við Into the Blue, Flags of Our Fathers og Joy Ride. 

Hann lést þann 30. nóvember síðastliðinn í hræðilegu bílslysi, ásamt vini sínum. Talið er að Walker hafi verið í farþegasætinu þegar Porsche-bifreið þeirra kastaðist útaf veginum og lenti á ljósastaur og trjám áður en kviknaði í henni. Þeir voru á leið á góðgerðasamkomu til hjálpar fórnarlamba náttúruhamfaranna á Filippseyjum í nóvembermánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×