Lífið

Sagðist ekki vita hvort Nigella notaði eiturlyf

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Saatchi sagðist einnig vera hryggbrotinn yfir því að hafa glatað Nigellu.
Saatchi sagðist einnig vera hryggbrotinn yfir því að hafa glatað Nigellu. Mynd/Nordicphotos/Getty
Charles Saatchi, fyrrverandi eiginmaður stjörnukokksins Nigellu Lawson, sagði fyrir rétti í Bretlandi í dag að hann vissi ekki sjálfur hvort hann tryði þeim ásökunum sem borna eru upp á fyrrverandi konu hans, þess efnis að hún væri eiturlyfjafíkill. Sky News greina frá þessu.

Hann sagðist einnig steinhissa á að tölvupóstur sem hann sendi henni þar sem hann fjallaði um meinta eiturlyfjanotkun hennar hefði verið gerður opinber.

Fyrir réttinum sagði Saatchi að hann hefði aldrei sjálfur orðið vitni af eiturlyfjanotkun Nigellu, en dómsmálið snýst um fjársvik sem fyrrverandi aðstoðarkonur Nigellu, Elisabetta og Francesca Grillo,  eru sakaðar um gegn henni. Þær eru sagðar hafa svikið háar fjárhæðir af þeim hjónunum en halda því sjálfar fram að þær hafi fengið leyfi frá Nigellu fyrir fjárútlátunum gegn því að halda eiturlyfjaneyslu hennar leyndri.

Saatchi sagðist með tölvupóstinum hafa verið að gera ráð fyrir að systurnar myndu nota þessar ásakanir sínar sem vörn í sakamálinu.

Hann hélt því fram fyrir rétti í dag að hann hefði aldrei orðið var við neitt sem benti til þess að fyrrverandi kona hans neytti eiturlyfja.

Hann sagðist einnig vera hryggbrotinn yfir því að hafa glatað Nigellu, en parið gekk í gegnum erfiðan skilnað á árinu og óskað Saatchi þess í vitnisburði sínum að allt síðasta ár hefði aldrei átt sér stað.

Þegar bornar voru upp á hann myndir af þeim á veitingastað þar sem virðist sem hann taki Nigellu hálstaki sagði Saatchi að hann hefði hvorki verið að kyrkja Nigellu né meiða hana með öðrum hætti: „Ég hélt höfði hennar upp með því að halda um háls hennar og láta hana einbeita sér,“ sagði Saatchi.

Hann sagði það hafa verið hugmynd Nigellu að láta systurnar hafa kreditkort þar sem þær sáu um innkaup fyrir heimilið og var það hluti af starfi þeirra sem aðstoðarkonur. Þá neitaði hann því að Nigella hefði nokkurn tímann leyft starfsfólki þeirra að eyða peningum hjónanna að vild.

Systurnar hafa einnig haldið því fram að Nigella hafi komið fram við þær eins og þræla og sagt að komið hafi verið fram við þær með verri hætti en filippseyska þræla. Saatchi sagði það af og frá, hann sagði Nigellu mjög góðan vinnuveitanda og að starfsmenn þeirra hafi dýrkað hana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.