Innlent

Þeir borga sem njóta

Samúel Karl Ólason skrifar
Ferðamönnum sem heimsækja Geysi í Haukadal hefur fjölgað mikið á síðustu árum og mun líklega fjölga enn frekar.
Ferðamönnum sem heimsækja Geysi í Haukadal hefur fjölgað mikið á síðustu árum og mun líklega fjölga enn frekar. Mynd/Vilhelm
Ragnheiður Elín Árnadóttir, Iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun frá áformum um að setja á fót samráðshóp. Hann mun útæfra nánar hugmyndir um svokallaðan náttúrupassa eða ferðakort. Gert er ráð fyrir að vinnu hópsins ljúki í lok þessa árs og að frumvarp verði lagt fram á Alþingi snemma á næsta ári.

Hugmyndin á bakvið náttúrupassa er, þeir borga sem njóta. Að ferðamenn sem heimsæki ferðamannastaði sem kortið nái til greiði fyrir það og stuðli þar með að vernd þeirra. Búið er að ræða slíkar hugmyndir um þónokkurn tíma en fullmótaðar hugmyndir eða útfærslur hafa ekki legið fyrir.

Á síðustu árum hefur mikil fjölgun verið á erlendum ferðamönnum hér á landi og gert er ráð fyrir að fjöldi þeirra fari yfir milljón á árinu 2020. Í ljósi þess er uppbygging ferðamannastaða og verndun þeirra er þörf til að koma í veg fyrir skemmdir á íslenskri náttúru. Hugmyndin um náttúrupassa er líklegust til að njóta samstöðu meðal hagsmunaaðila því hún mismunar ekki ólíkum rekstraraðilum innan ferðaþjónustunnar.

Ýtarlegustu tillögurnar komu fram í skýrslum Boston Consulting Group og ferðaþjónustuklasans. Samráðsvettvangur um aukna hagsæld hefur lagt til að notast verði við ferðakort til að standa við uppbyggingu á ferðamannastöðum. Samtök ferðaþjónustunnar hafa ályktað um að fara eigi þessa leið og Ferðamálaráð sömuleiðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×