Innlent

Tóku myndband af vændiskaupendum í Hamraborg: 100 þúsund króna sekt

FBJ og BL skrifar
Einn sakborninga í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.
Einn sakborninga í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Mynd/FBJ
Þeir tíu sakborningar sem ákærðir eru fyrir vændiskaup voru dæmdir til að greiða 100 þúsund króna sekt, eða að sæta fangelsi í sex daga, í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.

Þingfesting í málinu fer nú fram í héraðsdómi og hefur dómari ákveðið að dæma þá ákærðu strax, þó svo að þeir mæti ekki fyrir dóminn, samkvæmt 161. grein sakamálalaga. Að minnsta kosti einn hinna ákærðu hefur þó mætt fyrir dóm í morgun, og játaði hann sök.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu byggir ríkissaksóknari málin á myndbands-upptökum fyrir utan blokk, og inni í stigangi, í Hamraborg í Kópavogi. Þar sjást mennirnir kaupa vændi líklegast af einni konu. 

Í 161. grein segir: 

Nú kemur ákærði ekki fyrir dóm við þingfestingu máls þótt honum hafi verið löglega birt ákæra og þess getið í fyrirkalli að mál kunni að vera dæmt að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 155. gr., og má þá leggja dóm á málið ef ekki er kunnugt um að ákærði hafi lögmæt forföll og svo stendur á:

a. að brot þykir ekki varða þyngri viðurlögum en sekt, upptöku eigna og sviptingu réttinda og dómari telur framlögð gögn nægileg til sakfellingar eða

b. að ákærði hefur komið fyrir dóm við rannsókn máls, játað skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök og dómari telur ekki ástæðu til að draga í efa að játningin sé sannleikanum samkvæm, enda verði ekki dæmd þyngri refsing en sex mánaða fangelsi.

Slíkum dómi getur ákærði ekki áfrýjað, en þess í stað getur hann leitað eftir endurupptöku skv. XXIX. kafla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×