Innlent

Engar reglur til um samskipti kennara og nemenda á Facebook

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Björn segist hafa frétt af kennurum hér á landi sem nota Facebook-hópa í náminu og í einhverjum tilfellum fyrir börn sem ekki hafi aldur til þess að vera á Facebook.
Björn segist hafa frétt af kennurum hér á landi sem nota Facebook-hópa í náminu og í einhverjum tilfellum fyrir börn sem ekki hafi aldur til þess að vera á Facebook. mynd/365
„Það eru ekki neinar reglur eða viðmið í gildi á Íslandi um það hvort kennarar megi vera vinir nemenda sinna á samskiptasíðunni Facebook,“ segir Björn Egilsson, verkefnastjóri Heimili og skóla.

Hann segir mjög vert að skoða þessi mál. Samtökin hafi ekki náð að leggjast nógu vel yfir þessi þau, en það væri best að hafa einhver viðmið um það hvar mörkin eigi að liggja.

Eins og fram hefur komið á Vísi hafa yfirvöld í Þýskalandi bannað kennurum að vera vinir nemenda sinna á Facebook. Menntamálaráðherra landsins tilkynnti þetta í dag.

Björn segist hafa frétt af kennurum hér á landi sem nota Facebook-hópa í náminu og í einhverjum tilfellum fyrir börn sem ekki hafi aldur til þess að vera á Facebook.

„Það er í bígerð að búa til viðmið í samstarfi við menntamálaráðuneytið um hvaða reglur eigi að gilda varðandi skólastarf og internetið. Það verkefni á almennt við um vefsíður en sumir skólar birta til dæmis bekkjarlista í opinni dagskrá,“ segir Björn.

Hann segir að samtökin séu einnig að skoða hvernig myndbirtingu eigi að vera háttað, hvaða myndir af börnum eigi heima á opnum svæðum og hvaða myndir eigi aðeins að vera á læstum svæðum sem foreldrar barnanna hafi einir aðgang að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×