Innlent

Tengdasonur forsetans sækist eftir 3. sæti á Seltjarnarnesi

Karl Pétur Jónsson er framkvæmdastjóri Mostly Human Entertainment.
Karl Pétur Jónsson er framkvæmdastjóri Mostly Human Entertainment.
Karl Pétur Jónsson, framkvæmdastjóri, hefur lýst yfir framboði í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.

Í yfirlýsingu frá Karli Pétri segist hann hafa fjórar góðar ástæður til að bjóðast til að axla ábyrgð í bæjarmálum á Seltjarnarnesi. Það eru börnin hans fjögur sem sækja skóla og leikskóla á Nesinu.

Karl Pétur er framkvæmdastjóri Mostly Human Entertainment, fyrirtækis í alþjóðlegri framleiðslu menningarefnis og hefur um áratugaskeið verið ráðgjafi í almannatengslum. Lengst af var hann framkvæmdastjóri Inntaks Almannatengsla, en einnig fyrir bandaríska sjávarútvegsfyrirtækið Umami Sustainable Seafood.

Karl Pétur segir í yfirlýsingu sinni að á undanförnum árum hafi tekist vel til við flesta þætti stjórnunar Seltjarnarness þó ýmislegt megi gera betur. Stærsta sóknarfærið segir hann vera að bæta menntun barnanna. Seltjarnarnesbær geti orðið leiðandi í menntun barna á Íslandi og þannig komist í fararbrodd íslenskra sveitarfélaga. Bæjarfélagið eigi að stefna að því að eiga ekki bara einn af bestu skólum landsins, heldur hinn allra besta.

Börnin eigi að njóta góðs af sterkri fjárhagslegri stöðu, og næstu ár eigi að fjárfesta í þeim, sem muni skila sér í auknum tækifærum barnanna, betra samfélagi og aukinni eftirspurn fjölskyldufólks eftir búsetu á Seltjarnarnesi.

Helsta baráttumál Karls Péturs er að Grunnskóli Seltjarnarness verði innan fjögurra ára besti grunnskóli landsins og þess vegna sækist hann eftir stuðningi í 3. sæti til að fylgja því baráttu máli eftir.

Karl Pétur er giftur Tinnu Ólafsdóttur, dóttur Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×