Innlent

Hjúkrunarráð hvetur Alþingi til að auka fjárveitingar til LSH

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Hjúkrunarráð hvetur Alþingi allt til að vinna að skýrri og heildstæðri framtíðarsýn.
Hjúkrunarráð hvetur Alþingi allt til að vinna að skýrri og heildstæðri framtíðarsýn. Mynd/Vilhelm
Hjúkrunarráð Landspítala hefur ályktað þar sem Alþingi er hvatt til að auka fjárveitingar til spítalans svo unnt sé að veita viðunandi þjónustu og tryggja öryggi sjúklinga.

Hjúkrunarráð segir í ályktuninni að undanfarin fimm ár hafi niðurskurður verið gríðarlegur og tekist hafi með miklu aðhaldi að halda spítalanum innan fjárheimilda þrjú ár í röð, þrátt fyrir aukna starfsemi. Niðurskurðurinn hafi haft mikil áhrif á starfsemi og innviði spítalans, afleiðingin sé meðal annars úr sér genginn tækjabúnaður, mikið álag og atgervisflótti meðal heilbrigðisstarfsmanna.

Nú sé Landspítalinn kominn um 1,1 milljarð fram úr fjárveitingum ársins 2013 og ljóst að bæti stjórnvöld ekki við fjárframlög næsta árs hafi það alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir starfsemi spítalans.

Hjúkrunarráð varar við hugmyndum um sérstakt gjald á sjúklinga sem leggjast inn á sjúkrahús. sé er nú þegar áhyggjuefni hversu háar upphæðir sjúklingar greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. Auk þess verði innheimtan flókin og dýr.

Hjúkrunarráðið vill minna á nauðsyn þess að endurnýja húsakost spítalans. Núverandi húsnæði sé hvorki boðlegt sjúklingum né starfsmönnum og henti ekki nútíma heilbrigðisþjónustu, þar sem sjúklingar þurfi sérhæfða meðferð og flókinn tækjabúnað.

Að lokum segir í ályktuninni að Íslendingar þurfi skýra og heildstæða framtíðarsýn í heilbrigðismálum sem þjóðin geti sameinast um til langs tíma. Hjúkrunarráð hvetur Alþingi allt til að vinna að slíkri framtíðarsýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×