Innlent

Gísli í loftið á Sunnudagsmorgunn

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Gísli Marteinn Baldursson mætir á skjá landsmanna á Sunnudagsmorgunn.
Gísli Marteinn Baldursson mætir á skjá landsmanna á Sunnudagsmorgunn. Mynd/Anton
„Það verða margir góðir gestir í fyrsta þætti,“ segir Gísli Marteinn Baldursson sem stýrir nýjum stjórnmálaþætti sem hefur göngu sína á RÚV. Þátturinn hefur hlotið nafnið Sunnudagsmorgunn og fer í loftið kl. 11 næstkomandi sunnudag.

Gísli er að snúa aftur á RÚV eftir margra ára fjarveru en hann hefur undanfarin ár starfað sem borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann er spenntur fyrir því að snúa aftur á vettvang fjölmiðla.

„RÚV er stórkostlegur vinnustaður og það er frábært að vera kominn aftur í fjölmiðla,“ segir Gísli. „Við munum m.a. fara yfir fréttir vikunnar sem var að líða og einnig reyna að skyggnast aðeins inn í vikuna sem er að hefjast.“

Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, Dóri DNA og Kolbún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, munu ræða fréttir vikunnar. Illugi Gunnarsson og Katrín Jakobsdóttir verða einnig gestir fyrsta þáttar.

Mátar sófa og stóla

Gísli hefur verið virkur á samfélagsmiðlum og hefur t.d. birt myndir á Instragram þar sem hann mátar stóla og sófa sem verður í settinu í þættinum. „Samfélagsmiðlar eru fjölmiðlar eins og aðrir miðlar og ég mun reyna að fylgjast eins vel með og ég get. Ég ætla að reyna að vera gagnvikur á samfélagsmiðlum en við munum sjá til hversu mikið við notum þá í þættinum,“ segir Gísli.

Sunnudagsmorgunn verður að sögn Gísla talsvert öðruvísi stjórnmálaumræðuþáttur en Silfur Egils sem verið hefur á dagskrá á RÚV undanfarin ár á sunnudögum. „Þetta verður gjörólíkur þáttur,“ segir Gísli. „Egill er frábær sjónvarpsmaður og verður eflaust erfitt að feta í hans fótspor. Sunnudagsmorgunn verður hins vegar með svolítið öðru sniði.“

Guðrún Sóley Gestsdóttir og Jón Egill Bergþórsson eru auk Gísla í ritstjórn þáttarins. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir af Instagram-síðu þáttarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×