Enski boltinn

Mourinho þarf að borga eina og hálfa milljón

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea.
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea. Mynd/NordicPhotos/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, var í dag sektaður um átta þúsund pund, eða eina og hálfa milljón íslenskra króna, fyrir framkomu sína um síðustu helgi.

Mourinho var þá rekinn upp í stúku af dómaranum Anthony Taylor fyrir að mótmæla því að leikmenn Cardiff kæmust upp með að tefja á sama tíma og rekið var á eftir hans eigin leikmönnum.

Mourinho sætti sig við kæruna og sleppur því við leikbann í leiknum á móti Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi.

Mourinho segir umsögn dómarans hafa verið sanngjarna og sanna. Hann hafi vissulega mótmælt en af háttsemi.

„Það sem hann skrifaði í skýrslu sína var hárrétt og þess vegna skil ég ekki af hverju ég var sendur upp í stúku. Það er líka ástæða þess að ég fæ bara sekt en ekki leikbanni," segir Jose Mourinho við BBC.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jose Mourinho er rekinn upp í stúku á ferlinum en síðast gerðist það í leik með Real Madrid í maí fyrr á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×