Innlent

Ólafur Kristinn stefnir á fjórða sætið

Ólafur Kristinn Guðmundsson.
Ólafur Kristinn Guðmundsson.
Ólafur Kristinn Guðmundsson sækist eftir fjórða sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ólafur Kristinn er 57 ára Reykvíkingur og nátengdur akstursíþróttum, bílum og umferð til margra ára. Hann er varaformaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, fulltrúi akstursíþróttamanna í Umferðarráði og tæknistjóri í EuroRAP verkefninu á Íslandi frá 2004, sem er alþjóðlegt öryggisskoðunarkerfi fyrir vegi og innviði þeim tengdum.

Helsta baráttumál verða samgöngu- og skipulagsmál allrar tegundar umferðar. Umferðaröryggi, hagkvæmni og uppbygging samgöngumannvirkja verða efst á baugi, ásamt umhverfismálum sem tengjast samgöngum og umferð. Reykjavík hefur liðið mjög undanfarin ár vegna stefnuleysis í þessum málaflokki.

Hann hefur komið að fjölda verkefna tengdum umferðaröryggi á undanförnum árum, bæði á Íslandi og erlendis, svo sem í Tanzaníu og Kanada.

Ólafur er í vinnuhóp innanríkisráðuneytisins í átaki Sameinuðu þjóðanna, (Decade of Action) sem hófst árið 2011, þar sem 50% fækkun umferðarslysa til ársins 2020 er markmiðið. Þá átti hann sæti í nefnd sem vann frumvarp að nýjum umferðarlögum, sem var á vegum samgönguráðuneytisins 2008 til 2009.

Undanfarin 35 ár hefur Ólafur verið í forsvari fyrir akstursíþróttir á Íslandi og er nú í stjórn Akstursíþróttasambands Íslands innan ÍSÍ og fulltrúi þessarar greinar hjá FIA, sem er alþjóða bílasambandið.  Þá er hann alþjóðlegur dómari FIA í akstursíþróttum í ýmsum greinum kappaksturs, þar á meðal Formúlu 1.

Hann hefur tekið þátt í landsfundarvinnu Sjálfstæðisflokksins í áraraðir, sérstaklega hvað varðar samgöngur og umferðaröryggi, auk fleiri starfa á vetvangi flokksins, m.a. sem stjórnarmaður í hverfafélagi í mörg ár.  

Ólafur var kjörinn  í stjórn Umhverfis og Samgöngunefndar flokksins á flokksráðsfundi í mars 2012 þar sem mótun ályktunar og stefnu flokksin varðandi samgöngur á landi voru undirbúnar og samþykktar á síðasta landsfundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×