Enski boltinn

Gaf páfanum Sunderland-treyju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frans páfi.
Frans páfi. Mynd/NordicPhotos/Getty
Frans páfi fékk sérstaka gjöf í dag í tilefni af því að nágrannarnir og erkifjendurnir í Sunderland og Newcastle United mætast í Tyne–Wear derby-slagnum í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Nú er bara að sjá hvort að páfinn geti kallað fram einhver kraftaverk í leik Sunderland-liðsins en botnlið deildarinnar þarf svo sannarlega á hjálp að halda.

Marc Lyden-Smith, félagsprestur Sunderland, var staddur í Rómarborg ásamt Seamus Cunningham biskup og öðrum pílagrímum, og hópnum tókst að hitta á páfann þrátt fyrir mikið annríki.

Lyden-Smith var með Sunderland-treyju með sér þar sem stóð Papa Francesco, Frans páfi, á bakinu. Frans páfi er Argentínumaður og mikill fótboltaáhugamaður. Hann tók brosandi við gjöfinni en Péturstorgið var troðfullt og mikið um að vera. Páfinn sýndi síðan treyjuna við mikinn fögnuð viðstaddra.

Sunderland þarf svo sannarlega á kraftaverki að halda í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið situr í neðsta sætinu og hefur aðeins náð í eitt stig af 24 mögulegum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×