Fótbolti

Kólumbía á HM eftir magnaða endurkomu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Falcao fagnar því að Kólumbíumenn eru komnir á HM.
Falcao fagnar því að Kólumbíumenn eru komnir á HM. Mynd/AFP
Kólumbía var í kvöld þrettánda þjóðin til þess að tryggja sér sæti á HM í Brasilíu á næsta ári þegar liðið gerði 3-3 jafntefli við Síle á heimavelli í Suður-Ameríkuriðlinum í undankeppni HM 2014. Það stig sem og tap Úrúgvæ í Ekvador þýðir að Kólumbíumenn eru komnir inn á HM alveg eins og Argentína.

Þetta leit þó ekki vel út fyrir Kólumbíu því Síle komst í 3-0 á fyrsta hálftíma leiksins en Síle þurfti nauðsynlega á stigum að halda í baráttunni um eitt að fjórum efstu sætum riðilsins.

Alexis Sanchez, leikmaður Barcelona, skoraði tvö mörk með sjö mínútna millibili eftir að Arturo Vidal kom Sílemönnum á bragðið með marki úr vítaspyrnu á 19. mínútu. Síle-menn voru með sigurinn innan seilingar.

Þannig var staðan þar til að Teofilo Gutiérrez minnkaði muninn á 69. mínútu. Falcao tryggði Kólumbíu síðan jafntefli og sæti á HM með því að skora úr tveimur vítaspyrnum á 75. og 84. mínútu leiksins.

Jefferson Montero tryggði Ekvador 1-0 heimasigur á Úrúgvæ en Úrúgvæmenn sitja því væntanlega eftir í fimmta sætinu og verða að fara í umspilsleiki á móti Jórdaníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×