Handbolti

Svona verður leikjadagskrá Ís­lands í milliriðlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður vonandi jafngaman hjá Íslendingum í Malmö eins og í Kristianstad. Hér fagnar Elliði Snær Viðarsson með kátum stuðningsmönnum Íslands.
Það verður vonandi jafngaman hjá Íslendingum í Malmö eins og í Kristianstad. Hér fagnar Elliði Snær Viðarsson með kátum stuðningsmönnum Íslands. EPA/Johan Nilsson/

Dagur Sigurðsson og félagar fengu skell í kvöld og verðlaunin eru að næsti leikur er á móti Íslandi. Þjóðirnar spila fyrsta leikinn í milliriðlinum klukkan 14.30 á föstudaginn.

Lokaleikirnir í riðlakeppni Evrópumótsins í handbolta fóru fram í kvöld og þar með er loksins orðið endanlega ljóst hvernig milliriðill íslenska liðsins lítur út.

Það var vitað að íslenska liðið spilar tvo síðustu leiki sína við Svisslendinga og Slóvena en liðið byrjar aftur á móti á móti liðunum sem komu upp úr E-riðlinum.

Svíþjóð og Króatía voru komin áfram fyrir leik kvöldsins en spiluðu hreinan úrslitaleik um sigur í riðlinum og hve mörg stig þau taka með sér inn í milliriðilinn.

Íslenska liðið byrjar milliriðilinn á móti liðinu í öðru sæti og sigur Svía í kvöld þýðir að það verður því leikur á móti Degi Sigurðssyni og lærisveinum hans í króatíska landsliðinu á föstudaginn. Sá leikur verður sá fyrsti í þessum milliriðli og hefst klukkan 14.30 að íslenskum tíma. Ísland spilar klukkan 14.30 í þremur af fjórum leikjum sínum í milliriðlinum.

Strákarnir mæta síðan Svíum klukkan 17.00 á sunnudaginn en tveir síðustu leikirnir eru síðan á þriðjudag og miðvikudag í næstu viku, báðir klukkan hálfþrjú að íslenskum tíma.

Evrópska handboltasambandið hefur nú ákveðið tímaröð leikjanna en þrír leikir fara fram á hverjum degi klukkan 14.30, 17.00 og 19.30.

Leikir Íslands í milliriðli

Föstudagurinn 23. janúar Klukkan 14.30

Ísland-Króatía

Sunnudagurinn 25. janúar Klukkan 17.00

Ísland-Svíþjóð

Þriðjudagurinn 27. janúar klukkan 14.30

Ísland-Sviss

Miðvikudagurinn 28. janúar klukkan 14.30

Ísland-Slóvenía




Fleiri fréttir

Sjá meira


×