Fótbolti

Hafa Drogba og Ballack fyrirgefið Øvrebø?

Eyþór Atli Einarsson skrifar
Michael Ballack ekki parhrifinn af norska dómaranum Tom Hennig Øvrebø.
Michael Ballack ekki parhrifinn af norska dómaranum Tom Hennig Øvrebø. NordicPhotos/Getty
Norski dómarinn Tom Hennig Øvrebø hefur dæmt sinn síðasta leik. Ástæða þess að flautan fer nú á hilluna er sú að hnémeiðsli gerðu vart við sig fyrir tveimur árum og hefur honum reynst erfitt að komast yfir þau. Síðan 2011 hefur Øvrebø einungis dæmt í fyrstu deild norska boltans ásamt því að dæma leiki í norsku bikarkeppninni.

Þessi reyndi dómari, sem fimm sinnum var kjörinn dómari ársins, lítur yfir farinn veg og á hann margar góðar minningar.

Hann fékk að dæma í úrslitakeppni Evrópumótsins sem og úrslitaleiki í norska bikarnum.

Hann er þó líklega þekktastur fyrir að dæma leik Chelsea og Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar 2009. Þar fékk hann fyrir alvöru að kynnast reiði leikmanna og stuðningsmanna.

Chelsea tapaði leiknum og duttu þar af leiðandi úr keppninni. Stjörnur á borð við Michael Ballack, Didier Drogba og Peter Cech urðu brjálaðir þar sem þeim fannst hann klúðra stórum ákvörðunum í sinni dómgæslu.

Bæði enskir og norskir blaðamenn héngu fyrir utan hús hans til að ná af honum tali. „Það er óhætt að segja að Chelsea hafi orðið brjálað,“ sagði Øvrebø en hann sagðist þó hafa lært mikið af þessum leik.

Þessi fyrrum heimsklassadómari útilokar þó ekki að taka flautuna af hillunni og dæma í áhugamannadeildum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×