Fótbolti

Varnarleikurinn varð okkur að falli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

„Við gerðum okkur seka um slæm mistök, sérstaklega í hornum sem ég hafði lagt mikla áherslu á að stöðva,“ sagði Lars Lagerbäck í leikslok.

„Mér fannst liðið í heild verjast illa ólíkt því sem við gerum venjulega. Slóvenar fengu líka góð færi í fyrri hálfleiknum og það kom mér á óvart hve opinn hálfleikurinn var,“ sagði Svíinn.

Lagerbäck benti á að Ísland hefði skapað sér gnótt færa. Þrjú strax á upphafsmínútunum en þau hefði ekki tekist að nýta. Sömu sögu væri að segja um færi sem sköpuðust í síðari hálfeiknum.

Sá sænski sagði fjórða markið hafa komið eftir slæman varnarleik af hálfu íslenska liðsins.

„Þá vorum við byrjaðir að taka áhættu. Því miður gagnast sjaldnast að taka áhættu eins og kom berlega í ljós í kvöld.“

Þriðja mark Slóvena kom eftir hornspyrnu. Aðspurður hvað hefði farið úrskeiðis í markinu sagði Svíinn:

„Við spilum svæðisvörn í hornum en það réðst enginn á boltann. Mér sýndist boltinn fara yfir hausinn á Helga Val og þá átti einhver að vera mættur til að gera árás á boltann.“

Albanía og Noregur skildu jöfn í hinum leik kvöldsins. Svíinn var ánægður með úrslitin.

„Ég sagði leikmönnum frá því að þau úrslit væru jákvæð,“ sagði Lagerbäck á skemmtilegri nótum. Hann lagði áherslu á að riðillinn væri galopinn og öll liðin, nú líka Slóvenía, gætu nælt í annað sætið.


Tengdar fréttir

Ósáttur við gula spjald Kolbeins

Kolbeinn Sigþórsson, framherji Íslands, nældi sér í gult spjald í síðari hálfleiknum á kjánalegan hátt.

Aron Einar fluttur á sjúkrahús

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson fór úr axlarlið snemma í síðari hálfleik. Stöðva þurfti leikinn í töluverðan tíma áður en hann var borinn af velli sárþjáður.

Emil: Vorum ekki nógu góðir

"Þetta eru auðvitað vonbrigði. Það er alltaf leiðinlegt að tapa og þá sérstaklega eins og við gerum í dag. Þetta var hálf klaufalegt,“ sagði Emil Hallfreðsson eftir ósigurinn gegn Slóvenum í kvöld.

Sigur okkar var sanngjarn

Srečko Katanec, landsliðsþjálfari Slóvena, var hæstánægður með 4-2 sigurinn á Íslendingum á Laugardalsvelli í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×