Innlent

Um 40% þolenda í kynferðisbrotamálum yngri en 18 ára

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gerendur eru oft mun eldri en þolendurnir.
Gerendur eru oft mun eldri en þolendurnir. Mynd/ Getty.
Um 40% brotaþola í kynferðisbrotamálum eru yngri en 18 ára. Gerendur eru hins vegar eldri, þótt einnig séu dæmi um mjög unga gerendur, eða allt niður í 12 ára gamla. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um meðferð nauðgunarmála sem innanríkisráðherra fékk afhenta í morgun.

Rannsóknin er unnin af Hildi Fjólu Antonsdóttur, mann- og kynjafræðingi, og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur lögfræðingi með aðstoð Maríönnu Þórðardóttur, meistaranema í lýðheilsuvísindum. Rannsókninni til grundvallar liggja allar tilkynntar nauðganir sem bárust lögregluembættum landsins árin 2008 og 2009. Að mestu leyti er stuðst við frásagnir brotaþola.

Í skýrslunni kemur fram að í tilkynntum nauðgunarmálum eru langflestir brotaþolar konur eða stúlkur, eða 98%, en langflestir gerendur karlar eða drengir. Meðal þess sem einkennir þessi mál er mikill aldursmunur á brotaþola og hinum kærða.

Rannsóknin sýnir að í yfir helmingi tilfella eru tengsl milli brotaþola, þó þau séu mismikil á milli aðila, en í tæplega helmingi tilfella þekkjast gerendur og brotaþolar lítið sem ekkert.

Í þeim tilfellum þar sem gerandi þekkir brotaþola er yfirleitt um að ræða vin eða kunningja, eða í 37% tilfella. Sjaldgæft er að sakborningur sé fyrrverandi eða núverandi kærasti eða sambýlismaður eða einungis í 7% mála. Enn sjaldgæfara var að sakborningur sé fjölskyldumeðlimur, eða einungis í 3% mála. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.