Á miðnætti var opnuð kosning á vegum evrópska frjálsíþróttasambandsins þar sem kosið er um besta frjálsíþróttafólkið á þessu ári.
Einnig verður kosið um vonarstjörnurnar en við Íslendingar eigum þar glæsilegan fulltrúa hjá konunum. Heims- og Evrópumeistarinn í 800 metra hlaupi unglinga, Aníta Hinriksdóttir úr ÍR, er á meðal þeirra tólf sem eru tilnefndar.
Íslendingar geta hjálpað Anítu að hreppa hnossið með því að fara inn á fésbókarsíðu evrópska frjálsíþróttasambandsins,
www.facebook.com/EuropeanAthletics, en evrópska sambandið mun einnig taka inn í reikninginn atkvæði frá blaðamönnum. Kosningin stendur yfir til 27. september.
Aníta fær keppni frá ungverskum sleggjukastara, tyrkneskum kúluvarpara, rúmenskum lang- og þrístökkvara, sænskum spretthlaupara, hollenskri sjöþrautarstelpu, þýskum langstökkvara, sænskum spjótkastara, svissneskum grindahlaupara, ítölskum hástökkvara, serbneskum 1500 metra hlaupara og rússneskum stangarstökkvara.
Þetta er enn einn heiðurinn sem Anítu hlotnast á þessu ári en þessi 17 ára stelpa keppti á sínu fyrsta Demantamóti á dögunum, vann HM- og EM-gull með viku millibili, varð tvöfaldur Norðurlandameistari og hefur margbætt Íslandsmetið í 800 metra hlaupi á árinu.
Verður Aníta vonarstjarnan?
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið





Luiz Diaz til Bayern
Fótbolti



Uppgjörið: Vestri - ÍBV 2-0 | Fyrsti sigur Vestra síðan 15. júní
Íslenski boltinn

