Innlent

Sjóðandi heitt vatn setur menn og dýr í stórhættu

Hluti af hitaveitulögnum Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í Skorradal er úr sér genginn og skapar stórhættu fyrir menn og dýr. Ein lögnin fór sundur í gær með þeim afleiðingum að þúsundir lítra af 90 gráðu heitu vatni láku út og mynduðu stóra tjörn.

Sumarbústaðaeigendur á svæðinu, sem blaðið ræddi við, eru afar óánægðir og telja OR draga lappirnar í málinu. Að sögn Péturs Davíðssonar, sem situr í hreppsnefnd Skorradals, fer lögnin í sundur einu sinni til tvisvar í mánuði.

Þegar veitunni var komið á fót, árið 1996, var hún lögð í plaströr. Orkuveitan hóf endurnýjun á rörunum árið 2007 en hefur aðeins náð að skipta út rúmum helmingi þeirra.

Hitaveitulagnir OR sem liggja úr Deildatunguhver í Reykholtsdal yfir í Borgarnes eru einnig löngu komnar á tíma. Þær voru lagðar fyrir 33 árum og áttu þá að duga í tuttugu ár.

„Ég er búinn að þrýsta á Orkuveituna sem hefur brugðist við og endurnýjað hluta lagnarinnar en ég tel að það sé enn mikil hætta fyrir hendi,“ segir Sigurður Jakobsson, bóndi á Varmalæk.

Gamla lögnin var að mestu leyti yfirbyggð en á 300-400 metra kafla er hún enn niðurgrafin. Að sögn Sigurðar stafar mikil hætta á þeim hluta enda er hann aðeins um fimmtíu metra frá bæjardyrunum.

Lögnin hefur farið fjórum sinnum í sundur á síðustu tveimur árum. Í eitt skiptið lenti hross, sem Sigurður var að geyma fyrir mág sinn, ofan í sjóðheitu dýi sem hafði myndast og drapst.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, segir hættu vissulega skapast þegar hitaveituæðar gefi sig. Unnið sé að endurnýjun á báðum þessum lögnum, um 20 milljónir króna fari í lagnirnar í Skorradal á næstu tveimur árum og um 80 milljónir í Deildartungu á þessu ári.

„Það verður að segjast eins og er að fjárhagserfiðleikar hafa hægt á þessari nauðsynlegu endurnýjun.“ segir Eiríkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×