Fótbolti

Eiður Smári: Væri stórkostlegt að þjálfa landsliðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Vilhelm
„Fram til þessa hef ég lýst því yfir að ég hefði ekki áhuga á að fara út í þjálfun að ferlinum loknum,“ segir Eiður Smári Guðjohnsen.

Markahæsti leikmaður íslenska karlalandsliðsins frá upphafi segir í viðtali við Sports Direct News að sú skoðun hans hafi breyst.

„Eftir því sem árin færast yfir og þú verður vitrari þá uppgötvarðu hversu mikla reynslu þú hefur og hugmyndir fram að færa. Þannig að hver veit?,“ segir Eiður Smári hvort hann gæti hugsað sér að þjálfa íslenska landsliðið.

„Sérstaklega þegar þú horfir til þeirrar kynslóðar af leikmönnum sem við höfum fram að tefla í augnablikinu, yngri landsliðin eru að standa sig virkilega vel þannig að það væri stórkostlegt að gera það í framtíðinni.“

Eiður Smári segir Lars Lagerbäck eiga heiður skilinn og stóran þátt í velgengninni.

„Ef þú skoðar hvar landsliðið var statt fyrir undankeppnina þá vorum við í kringum 100. sæti á styrkleikalista FIFA en nú erum við á milli 40 og 50. Framfarirnar hafa verið miklar á skömmum tíma og, allt í einu, erum við með ótrúlegan fjölda hæfileikaríkra knattspyrnumanna á Íslandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×