Enski boltinn

Beckham hélt að hann væri orðinn stærri en Alex Ferguson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson og David Beckham.
Sir Alex Ferguson og David Beckham. Mynd/NordicPhotos/Getty
Sir Alex Ferguson, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United og einn sigursælasti stjóri knattspyrnusögunnar, gaf í dag út nýja ævisögu, My Autobiography, þar sem tjáir sig meðal annars um kringumstæðurnar þegar David Beckham yfirgaf félagið sumarið 2003.

Sir Alex er harður á því að David Beckham hafi valið frægðina yfir það að vera goðsögn hjá Manchester United. Beckham var 28 ára þegar hann yfirgaf Old Trafford þá búinn að skora 62 mörk í 265 deildarleikjum og hafði unnið sex meistaratitla með félaginu.

Ferguson var líka allt annað en hrifinn af því þegar David Beckham samdi við bandaríska félagið Los Angeles Galaxy árið 2007. „Hann gaf fótboltann upp á bátinn og nýja markmið hans var þá heimsfrægð utan fótboltans," skrifaði Sir Alex Ferguson í bókinni sinni.

Ferguson talar samt vel um Beckham sem hann segir hafa verið eins og son sinn. Skoski stjórinn skrifar meðal annars um fræga uppákomu í búningsklefanum þegar Ferguson sparkaði skó í David Beckham. Sir Alex kenndi þá Beckham um seinna markið í 0-2 tapi á móti Arsenal í enska bikarnum.

„Auðvitað ætlaði hann að vaða í mig en liðsfélagarnir hans stoppuðu hann. Ég sagði: Sestu niður. Þú hefur brugðist liðinu þínu," skrifaði Sir Alex Ferguson um atvikið.

Ferguson segist ennfremur þá hafa áttað sig á einu: „David Beckham hélt að hann væri orðinn stærri en Alex Ferguson," skrifar Sir Alex Ferguson og þá varð honum ljóst að hann yrði að selja Beckham.

Ferguson er líka viss um að David Beckham hafi verið byrjaður að tala við Real Madrid fyrr en þetta sumar þegar hann fór til Spánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×