Enski boltinn

Sir Alex: Mancini of fljótur á sér að segja að þetta sé búið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AFP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, er ekki sammála Roberto Mancini, stjóra Manchester City, um að United sé í raun búið að vinna deildina þótt að það séu enn fimm leikir eftir. United hefur fimm stiga forskot á City og liðin eiga auk þess eftir að mætast innbyrðis.

„Þetta er búið, fimm stig eru of mikið," sagði Roberto Mancini eftir 4-0 stórsigur á West Brom á miðvikudaginn en City minnkaði forskot United þá um þrjú stig. Ferguson er ósammála.

„Hann valdi rangan tíma til að fullyrða þetta. Það eru enn fimm leikir eftir og það eru alltaf miklar sviptingar í ensku úrvalsdeildinni sem gerir hana alltaf mjög heillandi," sagði Sir Alex Ferguson.

„Það verður að setja þetta í samhengi. Lið tapa stigum á endasprettinum og við höfum lent í því flest árin. Það hafa komið tímabil þar sem við höfum ekki tapað í langan tíma en fyrir nokkrum árum töpuðum við 1-4 fyrir Liverpool en unnum samt deildina," sagði Ferguson.

„Lið tapa stigum á endasprettinum og bæði við og City erum að lenda í því. Við erum samt mjög ánægðir með að vera í þeirri stöðu sem við erum í dag miðað við þá stöðu sem við vorum í fyrir nokkrum mánuðum," sagði Ferguson.

„Eitt það besta við þetta félag er hvernig menn koma til baka eftir slæm úrslit og við verðum nú að koma sterkir til baka eftir miðvikudaginn," sagði Ferguson en hann gaf það út að Paul Scholes myndi spila á móti Aston Villa á sunnudaginn. Scholes hvíldi í tapleiknum á móti Wigan.

„Paul Scholes hefur haft mjög góð áhrif á liðið síðan að hann kom til baka en það rétta í stöðunni var að hvíla hann á miðvikudaginn. Hann verður ferskur á sunnudaginn og mun spila," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×