Innlent

FÍB gagnrýnir notkun metanóls í eldsneyti

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.
Félag íslenskra bifreiðareiganda (FÍB) gagnrýnir notkun metanóls í bensín en í gær var metanólverksmiðjan CRI vígð á Reykjanesi. Í tilkynningu frá framkvæmdastjóra FÍB, Runólfi Ólafssyni segir að Metanólið, eða tréspírinn, sé „háskalegt eiturefni en etanólið ekki. Því hlýtur sú spurning að vakna hvort til standi að taka mjög vafasama lýðheilsufarslega áhættu hér á landi með því að hefja íblöndun tréspíra í bensín. FÍB vill eindregið mælast til þess að málið verði vandlega skoðað og ekki verði flanað að neinu í þessum efnum."

Þannig greinir Runólfur frá því að FÍB hefur kallað eftir upplýsingum frá systurfélögum sínum í Evrópu um þessi mál.

Svo segir orðrétt í tilkynningunni: „Í ljós hefur komið að íblöndunin er samkvæmt Evrópureglum og –stöðlum leyfileg allt að 3 prósentum. Hún er þó afar sjaldgæf nema að því leyti að hún virðist fyrirfinnast í mjög litlum mæli í tengslum við akstur keppnisbíla, einkum í A. Evrópu.

Tréspíranum er þá blandað saman við bensínið til að auka brunahraða eldsneytisins (hækka oktantöluna) en brunahraðinn skiptir nokkru fyrir mjög hraðgengar vélar. Hin lögleyfða 3% blanda virðist hins vegar mjög sjaldgæf í almennri sölu til neytenda og bifreiðaeigendafélögin í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi fullyrða að slík blanda sé alls ekki á boðstólum í þeirra löndum.

ACEA sem eru samtök evrópskra bifreiðaframleiðenda leggjast alfarið gegn 3% íblöndun tréspírans í bensín, hvað þá sterkari blöndu. Samtökin segja að tréspírinn sé mjög ætandi og hafi skemmandi áhrif á eldsneytiskerfi bíla."

Hægt er að lesa tilkynninguna í heild sinni hér fyrir neðan:

Í gær var haldin vígsluhátíð nýrrar metanólverksmiðju CRI á Reykjanesi og var fulltrúum FÍB, hagsmunasamtaka íslenskra bifreiðaeigenda ekki boðið til hátíðarinnar. Engu að síður er tilgangur þessarar verksmiðju sá að framleiða tréspíra til þess að blanda saman við bensín og ætla mætti að samtök íslenskra bifreiðaeigenda hefðu eitthvað um það mál að segja.

Í nýjasta tölublaði FÍB blaðsins er talsvert ítarlega fjallað um þessa fyrirhuguðu íblöndun, kosti hennar og galla. Af hálfu forsvarsmanna verksmiðjunnar er því haldið á lofti að um sé að ræða afar umhverfisvænt verkefni. Það snúist um það að framleiða innlent eldsneyti á íslenska bílaflotann með því að taka koltvísýring úr borholum á Reykjanesi og síðarmeir víðar um land og blanda honum saman við vetni sem búið er til með rafmagni frá jarðhitarafstöð og fá út fljótandi eldsneyti – metanól - sem nýtist bæði óblandað á bíla eða sem íblöndunarefni saman við bensín.

Flestir vita af því að víða tíðkast að blanda etanóli í bensín í allt að 85% hlutfalli og í hugum flestra er kannski ekki svo mikill munur á metanóli og etanóli. Svo er þó ekki. Það er reginmunur á þessu

tvennnu: Etanól er sjálft vímuefnið í öllu áfengi og t.d. venjulegt vodka er þannig oftast nokkurnveginn 40-45% blanda etanóls og vatns.

Metanólið, sem í daglegu tali kallast tréspíri, er á hinn bóginn stórvarasamt eiturefni sem veldur stórfelldum tauga- og líffæraskemmdum og dauða, sé þess neytt eða það kemst á annan hátt í líkama manna og dýra.

Það er munur á metanóli og etanóli. Metanólið eða tréspírinn er háskalegt eiturefni en etanólið ekki. Því hlýtur sú spurning að vakna hvort til standi að taka mjög vafasama lýðheilsufarslega áhættu hér á landi með því að hefja íblöndun tréspíra í bensín. FÍB vill eindregið mælast til þess að málið verði vandlega skoðað og ekki verði flanað að neinu í þessum efnum.

FÍB hefur kallað eftir upplýsingum frá systurfélögum sínum í Evrópu um þessi mál. Í ljós hefur komið að íblöndunin er samkvæmt Evrópureglum og –stöðlum leyfileg allt að 3 prósentum. Hún er þó afar sjaldgæf nema að því leyti að hún virðist fyrirfinnast í mjög litlum mæli í tengslum við akstur keppnisbíla, einkum í A. Evrópu.

Tréspíranum er þá blandað saman við bensínið til að auka brunahraða eldsneytisins (hækka oktantöluna) en brunahraðinn skiptir nokkru fyrir mjög hraðgengar vélar. Hin lögleyfða 3% blanda virðist hins vegar mjög sjaldgæf í almennri sölu til neytenda og bifreiðaeigendafélögin í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi fullyrða að slík blanda sé alls ekki á boðstólum í þeirra löndum.

ACEA sem eru samtök evrópskra bifreiðaframleiðenda leggjast alfarið gegn 3% íblöndun tréspírans í bensín, hvað þá sterkari blöndu.

Samtökin segja að tréspírinn sé mjög ætandi og hafi skemmandi áhrif á eldsneytiskerfi bíla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×