Enski boltinn

Gerrard: Finn til með Flanno

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Gerrard segir að hann viti nákvæmlega hvað hinn ungi Jon Flanagan hafi gengið í gegnum í leik Liverpool og Blackburn á dögunum.

Flanagan átti þó slæma sendingu ætlaða Alexander Doni í markinu en sóknarmaðurinn Junior Hoilett varð fyrr til í boltann. Doni braut svo á honum og uppskar fyrir rautt spjald auk þess sem vítaspyrna var dæmd.

Gerrard segir í viðtali á heimasíðu Liverpool að það sé eðlilegt að Flanagan líði illa út af þessu en að hann sé nógu sterkur til að jafna sig fljótt og vel.

„Ég þekki þetta vel. Ég gaf einu sinni stoðsendingu á Thierry Henry á EM í fótbolta og ég hef gert þetta nokkrum sinnum í úrvalsdeildinni líka," sagði Gerrard.

„Þrátt fyrir þetta hefur hann staðið sig virkilega vel síðan hann byrjaði að spila reglulega. Hann hefur verið með okkar betri leikmönnum."

„Þetta er sterkur strákur með góða skapgerð. Við munum hjálpa honum að komast yfir þetta og læra af mistökunum, rétt eins og ég gerði sjálfur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×