Innlent

Segir aðra kosti hafa verið í stöðunni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hafsteinn Karlsson er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Hafsteinn Karlsson er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Fullyrðingar Rannveigar Ásgeirsdóttur, oddvita Lista Kópavogsbúa, um að engin kostur annar hafi verið í stöðunni en að mynda meirihluta með Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum eru út í hött. Þetta fullyrðir Hafsteinn Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, í tilkynningu sem hann sendi fyrir hönd bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar og VG. Eins og kunnugt er mynduðu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Listi Kópavogsbúa meirihluta í gær. Hafsteinn segir að Samfylkingin, Vinstri græn og Framsóknarflokkur hafi boðið Lista Kópavogsbúa að minnsta kosti tvívegis í samstarf en Rannveig hafi ekki sýnt því neinn áhuga og neitað að taka þátt í slíkum viðræðum.

Þá furða bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og VG sig á ummælum bæjarfulltrúanna Rannveigar Ásgeirsdóttur og Hjálmars Hjálmarssonar í fjölmiðlum í gær um þá ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar Kópavogs að segja upp bæjarstjóra þar sem þau reyna að þvo hendur sínar af þessari ákvörðun.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og VG segja að á meirihlutafundi 12. janúar hafi Guðríði Arnardóttur verið falið að ganga á fund bæjarstjóra daginn eftir og ræða við hana um starfslok hennar. Allir sem voru á fundinum hafi verið sammála um það að Hjálmari undanskildum, en hann hafi viljað ræða við bakland sitt um framhaldið. Engu að síður segjast fulltrúar Samfylkingarinnar og VG hafa skilið Hjálmar þannig á fundinum að hann væri samþykkur því að fela Guðríði að ræða við bæjarstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×