Innlent

Ögmundur vill sjá hvað hangir á spýtunni í Nubo málinu

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segist ekki hafa fylgst með þeim samningaviðræðum sem nú eru í gangi á milli sveitarfélagsins Norðurþings og kínverska auðkýfingsins Huang Nubo. Fréttastofa greindi frá því á dögunum að Norðurþing íhugi að kaupa Grímsstaði á fjöllum með láni frá Nubo og leigja honum hana síðan.

Ögmundur, sem á sínum tíma hafnaði beiðni Nubos um kaup á Grímsstöðum, segir í samtali við Fréttastofu að hann vilji sjá hvað út úr þessum viðræðum komi áður en hann tjái sig um þær. Hann segist þó gefa sér að menn séu ekki að reyna að „fara inn bakdyramegin" í þessu máli, eins og hann orðar það en sveitarstjóri Norðurþings fór til Peking á dögunum til viðræðna við Nubo.

„Markmiðið er að við höldum Íslandi í eignarhaldi hér innanlands, og helst viljum við öræfin í almannaeign. En ég hef ekki haft neinar spurnir af því hvað sveitarstjórnarmenn eru að ræða þarna austur í Peking," segir Ögmundur en hann vill hafa alla fyrirvara á þessu máli uns hann sjái hvað hangi á spýtunni.

Hann bendir jafnframt á að stundum geti leiga á landi verið ígildi eignarhalds. „Þess vegna er það sett inn í lög að ef leiga er til langs tíma þá þurfi það að koma til kasta innanríkisráðuneytisins og til skoðunar. En það eru undantekningar á þeim lögum í öðrum lagabálki."

Ögmundur segist vilja sjá hvað út úr þessu komi fyrst. „Svo verður þetta mátað við veruleikann. Ég hef þó leyft mér að hafa uppi varnaðarorð þegar menn eru að bjóða fram mjög mikla peninga. Það hefur ekki reynst Íslendingum sérstaklega farsælt. En við skulum bara ætla mönnum allt hið besta og sjá hvað kemur út úr þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×