Sveitarstjórn Skagastrandar hefur samþykkt samning við Rarik um lagningu hitaveitu í bæinn. Gert er ráð fyrir að fyrstu hús tengist hitaveitunni haustið 2013 og að öll hús hafi möguleika á tengingu haustið 2014.
Á fundi sveitarstjórnarinnar í gær kom fram að Skagaströnd muni leggja fram óafturkræft framlag að upphæð 260 milljónir króna. „Af þeirri fjárhæð hefur sveitarfélagið tryggt sér 80 milljónir með sértækum framlögum á fjárlögum, 50 milljónir á fjáraukalögum 2011 og 30 milljónir á fjárlögum 2012. Beint framlag sveitarfélagsins verði því 180 milljónir króna sem greiðist á árunum 2012-2014,“ segir í fundargerð þar sem skýrt er frá því að með framlagi sveitarfélagsins og sérstöku framlagi á fjárlögum ríkisins sé arðsemi af veitunni tryggð.
Fyrst verður lögð ný stofnæð frá Reykjum við Húnavelli að Blönduósi á árinu 2012. Stofnæð lögð frá Blönduósi til Skagastrandar verður lögð á fyrri hluta árs 2013 og dreifikerfi lagt um byggðina þar sumarið og haustið 2013. Pípukerfi fyrir ljósleiðara á að opna nýja möguleika á flutningi stafrænna gagna.
Adolf H. Berndsen oddviti segir hitaveituna mikið framfaraskref sem bæta muni búsetuskilyrði og rekstrarumhverfi fyrirtækja.
- gar
