Innlent

Malbikið stenst ekki veðurofsann

BBI skrifar
Mynd/Stefan Olafsson
Það er hasar á Íslandi í dag og víða hafa menn lent í kröppum dansi vegna veðurofsa. Tugir björgunarsveitamanna hafa farið í hvert útkallið á fætur öðru og smalar hafa setið fastir í leitarmannakofum. Nú síðast stóðst malbikið við Skaftafellsá ekki rokið og flettist af veginum við brúna.

Leiðsögumaðurinn Stefan Johannes náði myndum af malbikinu, þar sem það hálfpartinn fýkur af veginum. Í samtali við mbl.is segir Stefan að leiðangur dagsins hafi verið stórundarlegur. Malbik flettist af vegum og rúður sprungu í bílum vegna roksins. Hann segir þó ferðamennina hafa skemmt sér konunglega þó leiðsögumönnunum hefði brugðið í brún.

Elín Björk Jónasdóttir hjá Veðurstofunni segir að þó það sé býsna hvasst á landinu sé vindhraðinn ekkert sérstaklega óeðlilegur. „Rúður hafa nú sprungið í bílum áður. Ég hugsa nú að það gerist nokkrum sinnum á hverjum vetri," segir hún.

Ástæðan fyrir þessu mikla roki er djúp lægð sem nú er yfir landinu. Á sama tíma er hæð yfir Grænlandi sem eykur enn skilin milli svæðanna og ýtir undir rokið. Íslendingar geta búist við nokkru roki næstu daga því önnur lægð er á leiðinni. Hún verður hins vegar ekki jafndjúp svo ástandið verður ekki jafnslæmt þegar hún kemur á miðvikudaginn eða fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×