Innlent

Aðgerðaáætlun liggur fyrir

Ísland hefur lagt fram áætlun um framkvæmd ESB-reglna í sveitarstjórnar- og byggðamálum, verði aðild samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ísland hefur lagt fram áætlun um framkvæmd ESB-reglna í sveitarstjórnar- og byggðamálum, verði aðild samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mynd/FRamkvæmdastjórn ESB
Stjórnvöld hafa lagt fram aðgerðaáætlun um breytingar á byggða- og sveitarstjórnarmálum komi til aðildar Íslands að ESB. Segja að engar breytingar verði gerðar eingöngu vegna aðildarviðræðna.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt fram tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig undirbúningi á sviði byggða- og sveitarstjórnarmála verði háttað komi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Þessi skýrsla er unnin eftir að fram kom við rýnivinnu framkvæmdastjórnar ESB um málaflokkana síðasta haust að slíkrar áætlunar væri þörf áður en samningaviðræður hefjast þar um. Það er vegna þess að íslensk stjórnvöld kváðust ekki munu breyta íslenska landbúnaðarkerfinu í tengslum við aðildarviðræðurnar fyrr en eftir samþykkt aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Áætlunin hefur verið afhent framkvæmdastjórn og aðildarríkjum ESB. Í frétt á vef utanríkisráðuneytisins kemur fram að fjallað hafi verið um áætlunina í ráðherranefnd um Evrópumál og utanríkismálanefnd Alþingis áður en hún var kynnt ESB.

Á vefnum segir að skýrt komi fram í áætluninni „að ekki verða gerðar breytingar á núverandi löggjöf eða framkvæmd byggðastefnu á Íslandi eingöngu vegna samningaviðræðnanna við ESB fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar felst í áætluninni að Ísland verður tilbúið til að stíga þau skref sem nauðsynleg eru til að axla þá ábyrgð og njóta þess ávinnings sem þátttaka í byggðastefnu Evrópusambandsins felur í sér.“

Í skýrslunni er ferlinu skipt í þrjá hluta; fram að hugsanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu, eftir atkvæðagreiðslu, að því gefnu að aðildarsamningur verði samþykktur, og fram að inngöngu og loks eftir að Ísland er orðinn fullgildur aðili að ESB.

Í fyrsta áfanganum er undirbúningsáfanginn þar sem gerð eru drög að áætlunum, mótun stofnanaramma, og undirbúningur verkefnavísa. Í öðrum áfanga er gert ráð fyrir því að komið verði á nauðsynlegri stjórnsýslu og stofnanaumgjörð og kerfum auk þess sem lokið verður við gerð framkvæmdaáætlana. Í þriðja áfanga yrði samheldnistefna ESB tekin í gildi í samræmi við ákvæði aðildarsamningsins.

Áætlunin er unnin af samningshópi um 22. kafla í aðildarviðræðunum við ESB, um uppbyggingar- og byggðaþróunarstyrki, en í hópnum eru 25 manns frá ráðuneytum, sveitarfélögum, aðilum vinnumarkaðarins og hagsmunaaðilum. Viðræður um samningskaflann um byggðamál munu hefjast síðar á þessu ári, að því er segir á vef utanríkisráðuneytisins.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×