Innlent

4,7 milljarða halli á rekstri borgarinnar

Jón Gnarr
Jón Gnarr
Tæplega 4,7 milljarða króna halli er á rekstri A- og B-hluta samstæðu Reykjavíkurborgar samkvæmt ársreikningi. Niðurstaðan er sögð lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011 var samþykktur á fundi borgarstjórnar á þriðjudag.

„Skýringuna á hallanum er að finna í fjármagnsliðum sem voru neikvæðir um 22,7 milljarða, að megninu til vegna erlendra skulda Orkuveitu Reykjavíkur,“ segir í tilkynningu borgarinnar. „Það sem veldur hallanum eru því óvissuþættir eins og miklar sveiflur á gengi krónunnar, aukin verðbólga og gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga upp á tæpa 4,4 milljarða sem var áætluð 600 milljónir vegna óvissu í kjaraviðræðum.“

Haft er eftir Jóni Gnarr borgarstjóra að sé litið á rekstur borgarinnar í heild sé hann hvarvetna í mjög góðu lagi. „Og því er ég mjög ánægður með árangurinn.“

Í umræðum um ársreikninginn gagnrýndi Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, hversu illa borgin kæmi út í samanburði við nágrannasveitarfélögin. Skatttekjur Reykjavíkurborgar af hverjum íbúa væru með því hæsta sem gerist, auk þess sem rekstrarkostnaður borgarinnar væri mun hærri en í nágrannasveitarfélögunum og hærri en hann hafi verið áður en núverandi meirihluti tók við.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×