Innlent

Ákærðir fyrir óhlýðni við hafnarstjóra

Mennirnir neituðu að fjarlægja rúturnar þrátt fyrir fyrirmæli hafnarstjóra.
Mennirnir neituðu að fjarlægja rúturnar þrátt fyrir fyrirmæli hafnarstjóra. Fréttablaðið/gva
Sýslumaðurinn á Akureyri hefur ákært tvo menn fyrir að óhlýðnast ítrekað fyrirmælum hafnarstjórans á Oddeyrarbryggju á Akureyri og starfrækja þar í óleyfi rútuþjónustu fyrir farþega skemmtiferðaskips dag einn í ágúst 2010. Annar mannanna er Björn Mikaelsson, sem um árabil gegndi stöðu yfirlögregluþjóns á Sauðárkróki.

Samkvæmt ákærunni fór hafnarstjórinn nokkrum sinnum fram á það við mennina með skýrum hætti að þeir fjarlægðu bíla sína, meðal annars nokkrar rútur, af hafnarsvæðinu en mennirnir sinntu því engu.

Óhlýðnin þykir varða við reglugerð um Hafnasamlag Norðurlands og hafnarlög. Viðurlögin við þessum brotum eru sektir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem uppátæki Björns Mikaelssonar rata í fréttir. Hann fór í veikindaleyfi frá störfum sínum fyrir lögregluna á Sauðárkróki árið 2008 eftir skærur við sýslumanninn í bænum, sem hafði veitt honum áminningu í sex liðum fyrir að vanrækja skyldur sínar og tala ógætilega um starf sitt og undirmenn í fjölmiðlum og símtölum við yfirmenn. Hann sneri ekki aftur til starfa.

Hálfu ári áður hafði Fréttablaðið greint frá því að Björn ræki bílaleigu samhliða starfi sínu fyrir lögregluna og hefði meðal annars gert það út úr lögreglustöðinni á Sauðárkróki. Sýslumaðurinn sagði þá óeðlilegt að yfirlögregluþjónn væri einnig í forsvari fyrir bílaleigu og að tekið yrði fyrir það.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×