Innlent

Karlar koma með fyrnd brot

105 einstaklingar hafa kært kynferðisbrot til lögreglunnar á Akureyri síðan árið 2009. Þrír kærenda voru karlmenn. 
Fréttablaðið/vilhelm
105 einstaklingar hafa kært kynferðisbrot til lögreglunnar á Akureyri síðan árið 2009. Þrír kærenda voru karlmenn. Fréttablaðið/vilhelm
Nær helmingur þolenda kynferðisbrota sem leitaði til Aflins á Akureyri á síðasta ári voru karlmenn. Alls leituðu 12 karlar og 14 konur til samtakanna í fyrra, að því er fram kemur í ársskýrslu. Starfsmenn Aflsins, sem eru samtök gegn kynferðisofbeldi, tóku 685 einkaviðtöl á árinu, en þau voru 427 árið 2010. Viðtölum fjölgaði því um rúm 60 prósent á milli ára.

Gerendur eru karlmenn í flestum tilvikum, en Anna María Hjálmarsdóttir, formaður Aflsins, segir þolendur af báðum kynjum hafa leitað til samtakanna vegna kvenkyns gerenda. Hún segir hlutfall karla sem leiti til þeirra hafa aukist jafnt og þétt milli ára.

„Gerendurnir eru í flestum tilvikum karlmenn, en ekki öllum,“ segir hún. „Ég held að fólk sé að viðurkenna það meira og meira að gerendur geti verið af báðum kynjum.“

Ekki er algengt að karlarnir leiti til lögreglunnar í kjölfar viðtals og aðstoðar hjá Aflinu, en Anna María segir það þó koma fyrir í undantekningartilvikum.

Til samanburðar voru karlar 11,5 prósent þeirra sem leituðu til Stígamóta í fyrra, eða 32 af 278.

Aflið tekur á móti einstaklingum af öllu landinu, en langstærstur hluti þeirra sem leita til samtakanna koma frá Akureyri og nágrenni.

Anna María segir meira um að konur leiti sér aðstoðar vegna nýrra mála en karlar. Á milli áranna 2007 og 2011 hefur nýjum málum fjölgað um 466 prósent. Ekki hafa verið teknar saman tölur um heildarfjölda þeirra einstaklinga sem hafa leitað til Aflsins vegna kynferðisbrota. Samtökin voru stofnuð árið 2002 í kjölfar tilraunaverkefnis Stígamóta.

Hundrað kynferðisbrot voru kærð til lögreglunnar á Akureyri á árunum 2009 til 2011. Þar af voru þrjú fórnarlambanna karlmenn. Fimm brot hafa verið kærð það sem af er ári og eru fórnarlömbin í öllum tilvikum konur.

Gunnar Jóhannsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri, segir kynjahlutfall þeirra þolenda sem leiti til Aflsins því ekki endurspeglast í þeim málum sem koma inn á borð til lögreglunnar.

„Skýringin er sú að í flestum tilvikum er um að ræða karlmenn sem eru nú að leita sér aðstoðar vegna þess að þeir voru kynferðislega misnotaðir í æsku,“ segir hann. „Og í langflestum tilvikum eru brotin löngu fyrnd og gerendurnir jafnvel látnir.“

Rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri rannsakar kynferðisbrot á öllu Norðurlandi.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×