Innlent

Lögregla getur borið refsiábyrgð

 Lögregla fór óvarlega með persónuupplýsingar í sjónvarpsþætti á mbl.is að mati Persónuverndar. Fréttablaðið/Daníel
Lögregla fór óvarlega með persónuupplýsingar í sjónvarpsþætti á mbl.is að mati Persónuverndar. Fréttablaðið/Daníel
Persónuvernd beinir þeim tilmælum til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að gæta varúðar við meðferð persónuupplýsinga eftir að myndir og nafn fórnarlambs árásar voru birt á í sjónvarpsþætti á fréttavefnum mbl.is. Stofnunin minnir lögreglu á að refsiábyrgð geti legið við brotum á lögum um persónuvernd.

Í þættinum var fjallað um rannsókn tæknideildar lögreglu í tengslum við tilkynningu um líkamsárás og rætt við lögreglumann sem rannsakaði málið. Sýndar voru ljósmyndir af áverkum hins meinta fórnarlambs, þar sem greina mátti andlit hans, auk þess sem greint var frá nafni hans í þættinum.

Tekið var fram í þættinum að talið væri að maðurinn kynni að hafa veitt sér áverkana sjálfur og að í raun hafi því ekki verið um árás að ræða.

Persónuvernd hafði áður gert bréflegar athugasemdir við lögregluna vegna sambærilegs efnis sem birtist í erindi sama lögreglumanns á Læknadögum árið 2010. Persónuvernd aðhafðist þó ekkert í kjölfarið þar sem stjórnendur lögreglunnar sögðu að vinnubrögð yrðu bætt.

Í ákvörðun Persónuverndar segir að loforð um bætt vinnulag hafi ekki gengið eftir, og líta verði málið alvarlegum augum. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×