Innlent

Villikettir herja á íbúa í Borgarnesi

Villikettir hafa verið að ónáða íbúa í Borgarnesi síðustu mánuði en talið er að um 420 kettir séu í sveitarfélaginu. nordicphotos/getty
Villikettir hafa verið að ónáða íbúa í Borgarnesi síðustu mánuði en talið er að um 420 kettir séu í sveitarfélaginu. nordicphotos/getty
Kattafaraldur geisar nú í Borgarnesi og er fjöldi katta þar farinn að valda mörgum íbúum ónæði. Í flestum tilfellum er um villiketti eða óskráða ketti að ræða. Ástandið er orðið svo slæmt að að gæludýraeftirlitsmaður hefur verið sendur út af örkinni til að handsama óskráða ketti. Átakið mun standa næstu vikur.

„Það eru 84 kettir á skrá hjá okkur og 64 sem við vitum af en eru óskráðir,“ segir Björg Gunnarsdóttir, umhverfisfulltrúi í Borgarbyggð. Svo virðist sem stærstur hluti katta í bænum sé óskráður eða gangi sjálfala. Aðeins um fimmtungur er lögformlega skráður. „Við teljum samt að það séu ekki nema um 20 prósent katta skráðir en við áætlum að kettirnir í Borgarbyggð séu um 420.“

Björg segir að kettirnir séu úti um allt. Þeir hreiðri um sig í húsagörðum og dæmi séu líka um að þeir skjótist inn á glugga í húsum víða í bænum. „Við erum að reyna að ná þeim sem eiga hvergi heima og höfum verið að handsama slatta af villiköttum,“ segir Björg.

Vandamál vegna katta er ekki nýtt af nálinni í Borgarbyggð. Á síðustu fjórum árum hafa 66 kettir verið svæfðir í bænum. Þeir óskráðu kettir sem nást eru geymdir um sinn. Auglýst er eftir eigendum og þeir síðan afhentir eftir að gjald fyrir handsömun hefur verið reitt af hendi. Það kostar 15.700 krónur að leysa út kött sem hefur verið handsamaður.

Öðru máli gegnir um villikettina og verða þeir svæfðir þegar til þeirra næst. Kattaeigendur sem eiga eftir að skrá ketti sína er bent á að bæta þar úr hið snarasta og losna þannig við óþarfa kostnað.

kristjan@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×