Innlent

Apríl sjaldnast kaldasti mánuðurinn

Frá ófærðinni í janúar.
Frá ófærðinni í janúar.
Janúar og febrúar eru yfirleitt köldustu mánuðir ársins hér á landi miðað við tölur frá síðustu 189 árum. Apríl hefur aðeins þrisvar komist á blað sem kaldasti mánuðurinn og því lítil hætta á að kuldametið þetta árið verði bætt fyrr en næsta vetur.

Þetta kemur fram í samantekt Trausta Jónssonar veðurfræðings á hitastigi yfir köldustu mánuði ársins. Frá árinu 1823 hefur janúar oftast verið kaldasti mánuðurinn, alls 52 sinnum. Febrúar fer nærri því að jafna það met, en hann hefur 51 sinni verið kaldastur. Desember er rétt ríflega hálfdrættingur, og hefur 30 sinnum verið kaldastur.

Aðeins tveir aðrir mánuðir komast á blað í samantekt Trausta, enda varla við því að búast að kuldamet ársins séu slegin að sumri eða hausti.

Nóvember hefur níu sinnum verið kaldasti mánuður ársins. Apríl rekur svo lestina. Aðeins þrisvar hefur hann verið kaldasti mánuðurinn, síðast veturinn 1953. Þá var tíðin afar leiðinleg, og hríðarveður og kuldi urðu þess valdandi að gróður sem þá var kominn á skrið sölnaði aftur, segir í samantekt Trausta.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×