Innlent

Ísleysið á Öskjuvatni er til marks um aukinn jarðhita

Þessi mynd utan úr geimnum segir meira en mörg orð, hér sést Öskjuvatn íslaust en landið annars þakið ís og snjó.
Þessi mynd utan úr geimnum segir meira en mörg orð, hér sést Öskjuvatn íslaust en landið annars þakið ís og snjó. mynd/Modis/nasa/unnin á veðurstofu á íslands
Vísindamenn lögðu í gær línurnar vegna óvenjulegs ástands við Öskju, sem er eldstöð norðan Vatnajökuls. Öskjuvatn var orðið íslaust í mars, sem er óþekkt. Almannavarnir vara við ferðalögum um svæðið.

Vísindamenn Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands funduðu í gær um eldstöðina Öskju norðan Vatnajökuls. Farið var yfir gögn úr rannsóknaleiðangri með flugvél Landhelgisgæslunnar sem farinn var á mánudag. Tilefni rannsóknanna er að Öskjuvatn var orðið íslaust strax í mars, sem er tveimur til þremur mánuðum fyrr en venja er til.

„Vatnið var íslaust í mars og það er vísbending um verulega aukinn jarðhita á botni vatnsins einhvers staðar“, segir Einar Kjartansson, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Einar bendir á að þó óvenjuhlýtt hafi verið á landinu í mars skýri það ekki ísleysið á Öskjuvatni, enda séu önnur vötn á hálendinu, til dæmis Hágöngulón og Mývatn, enn undir ís. Þess vegna þótti vísindamönnum ástæða til frekari athugana.

Í fluginu kom einnig í ljós að þekktu jarðhitasvæðin þrjú á svæðinu voru vel virk, en engin auðsjáanleg merki nýs yfirborðshita var sjáanlegur. Stóra askjan var undir snjóþekju og engin bræðsla var sjáanleg.

Spurður nánar um eldstöðina Öskju segir Einar að í síðasta gosi, árið 1961, hafi fylgt nokkur aðdragandi með aukinni jarðhitavirkni. Hann segir jafnframt að þétt mælanet sé á svæðinu sem geti gefið upplýsingar þegar gögnunum hefur verið safnað saman. „Þarna varð gríðarlega stórt gos 1875 og nokkur smágos fram til gossins 1961. Það er því ekkert reglulegt mynstur sem gæti gefið hugmyndir um hvenær næsta gos sé væntanlegt.“

Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra sendi frá sér tilkynningu síðdegis í gær. Þar kemur fram að Jarðvísindastofnun og Veðurstofan munu fara í leiðangur á svæðið eftir páska til þess að gera mælingar á svæðinu og koma fyrir tækjabúnaði til frekari mælinga.

Vegna óvissu vill lögregla beina þeim tilmælum til fólks að fara ekki um svæðið að óþörfu. „Sérstaklega er varað við því að fólk fari að Víti eða Öskjuvatni vegna möguleikans á að eitraðar gastegundir séu að leita upp,“ segir í tilkynningu.svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×