Innlent

Helsti óvissuþáttur í spá um þróun íbúðaverðs

Íbúðalánasjóður á 1.600 fasteignir en 80 prósent þeirra eru á landsbyggðinni.
Íbúðalánasjóður á 1.600 fasteignir en 80 prósent þeirra eru á landsbyggðinni. Fréttablaðið/Vilhelm
Fjöldi íbúða í eigu fjármálastofnana er einn helsti óvissuþátturinn í spá greiningardeildar Íslandsbanka um þróun íbúðaverðs. Í lok síðasta árs voru um þrjú þúsund íbúðir í eigu fjármálastofnana, þar af 1.600 í eigu Íbúðalánasjóðs.

Í fréttabréfi greiningardeildar Íslandsbanka kemur fram að þær þrjú þúsund íbúðir sem eru í eigu fjármálastofnana séu um 2,3 prósent af heildarfjölda íbúða í landinu. Þó það sé ekki há tala er bent á að um sex þúsund íbúðir hafi gengið kaupum og sölum á landinu öllu í fyrra. Svo mikið framboð fasteigna gæti því haft áhrif á íbúðaverð til lækkunar ef það yrði losað inn á markaðinn á stuttum tíma. Greiningardeildin telur hins vegar ólíklegt að slíkt muni gerast og bendir meðal annars á að Íbúðalánasjóður hafi farið sér afar hægt í þessum efnum. Sjóðurinn hafi selt 154 íbúðir á síðasta ári og árið 2010 hafi þær verið 132.

„Líklegt er að Íbúðalánasjóður muni þó á næstu árum losa um eignir hraðar en á síðustu tveimur árum en með sama áframhaldi tæki það sjóðinn tíu ár að selja allar íbúðir sínar,“ segir í Morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.

- kh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×