Innlent

Perlumenn ekki rætt við ráðuneytið

Hæstbjóðendur í Perluna vilja reisa viðbyggingu undir náttúrugripasafn við húsið.

MYNd/Freyr Frostason THG Arkitektar
Hæstbjóðendur í Perluna vilja reisa viðbyggingu undir náttúrugripasafn við húsið. MYNd/Freyr Frostason THG Arkitektar
„Ég hef sagt að ég sé tilbúin til að skoða Perluna sem hugsanlegt húsnæði fyrir náttúruminjasafn en mér finnst það vera sjálfstæð ákvörðun og ekki hanga endilega á einhverjum þriðja aðila," segir Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Eins og fram hefur komið vilja hæstbjóðendur í söluútboði reisa viðbyggingar við Perluna og að ein þeirra hýsi „Náttúrugripasafn Íslands" sem svo var nefnt áður en heiti þess var breytt í Náttúruminjasafn Íslands.

Katrín segir Náttúruminjasafnið nú vera í bráðabirgðahúsnæði í loftskeytastöðinni á Melunum. „Það hefur komið fram umræða, eftir að upp kom að Perlan væri til sölu, að hún gæti verið hentugt húsnæði fyrir þetta safn. En þessi hugmynd sem kemur frá þessum tilboðsgjöfum hefur ekki komið hingað inn í menntamálaráðuneyti," segir ráðherra og undirstrikar að hún hafi aðeins heyrt um áform hæstbjóðendanna í fjölmiðlum. Hún sé ekki einu sinni viss um að þeir séu að vísa til Náttúruminjasafns Íslands með tillögu sinni um náttúrugripasafn.

Fyrirspurn um umræddar breytingar á Perlunni var á miðvikudag tekin fyrir í Skipulagsráði Reykjavíkur sem vísaði málinu til umsagnar hjá skipulagsstjóra.- gar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×