Innlent

„Hæpið“ að klára viðræður fyrir kosningar

Utanríkisráðherra sagði á fundi með utanríkismálanefnd að hæpið væri að klára ESB-viðræður fyrir þingkosningarnar sem eru fyrirhugaðar á næsta ári. Fréttablaðið/gva
Utanríkisráðherra sagði á fundi með utanríkismálanefnd að hæpið væri að klára ESB-viðræður fyrir þingkosningarnar sem eru fyrirhugaðar á næsta ári. Fréttablaðið/gva
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra telur hæpið að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið fyrir þingkosningar á næsta ári.

Össur lét þessi orð falla á opnum nefndarfundi með utanríkismálanefnd í gær eftir spurningu frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokks. Utanríkisráðherra sagði að vissulega hefði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lýst því yfir að hennar markmið hafi verið að ljúka viðræðum fyrir kosningar.

„Ég hef áður sagt að það þurfi að ganga rösklega til þess að það sé hægt að ljúka viðræðum fyrir kosningar og tel ákaflega hæpið að ná því.“ Hann vísaði í því sambandi til kaflanna um sjávarútveg og landbúnað. Össur bætti því þó við að fyrst og fremst væri litið til gæða en hraða í viðræðunum. Aðspurður um hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðnanna sagði Össur að hann teldi heilladrýgst að ljúka viðræðunum og leggja samninginn svo fyrir þjóðina.

Mörður Árnason, samflokksmaður Össurar í Samfylkingu, spurði hvort ráðherra teldi líkur á því að það gæti haft óhagstæð áhrif á samningsstöðu Íslands ef ákveðið væri í þjóðaratkvæðagreiðslu að halda viðræðunum áfram. Össur sagði að þau sjónarmið væru vissulega uppi en þó mætti leiða getum að því að ef útkoman stæði naumt gæti það orðið samningsstöðu Íslands til góða. - þj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×