Innlent

Fer fyrir borgarráð í næstu viku

Ólafur F. Magnússon varð borgarstjóri eftir að hafa gengið til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn í borginni í janúar 2008.
Ólafur F. Magnússon varð borgarstjóri eftir að hafa gengið til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn í borginni í janúar 2008. Fréttablaðið/Vilhelm
Borgarráði verður í næstu viku kynntur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem borginni er gert að greiða Frjálslynda flokknum tæplega 3,4 milljónir króna með vöxtum. Dómurinn er til kominn vegna framlags sem ranglega rann til Borgarmálafélags F-lista, sem Ólafur F. Magnússon, þáverandi oddviti listans, hafði stofnað.

Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður segist enn vera að fara yfir dóminn og engrar ákvörðunar að vænta um viðbrögð við honum fyrr en hún hafi kynnt hann borgarráði og um hann fjallað á þeim vettvangi.

„Ég hef ekki enn haft færi á að kynna dóminn í borgarráði en það verður gert í næstu viku,“ segir Kristbjörg, sem kveðst enn vera „að melta dóminn“ og því ekki komin með tillögu að viðbrögðum við honum eða hvort Borgarmálafélag F-listans verður krafið um endurgreiðslu á þeim fjármunum sem til þess runnu.

„Fyrst þarf vitanlega að taka afstöðu til þess hvort málinu verði áfrýjað. Á því ræðst hvort aðrar ákvarðanir bíða,“ segir Kristbjörg. Verði málinu áfrýjað til Hæstaréttar segir hún þá vinnu fá athyglina alla, enda ráði þá niðurstaða þess máls hvað gert verði í framhaldinu. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×