Innlent

Augnlokin frusu saman í kuldanum

Frostið í Svíþjóð fór niður í 39 stig á Celsíus um helgina og þá frusu augnlokin á Hallberu næstum því saman.
Frostið í Svíþjóð fór niður í 39 stig á Celsíus um helgina og þá frusu augnlokin á Hallberu næstum því saman. Mynd/úr einkasafni
„Það er búið að vera alveg ógeðslega kalt eða gusåkalt eins og Svíarnir segja alltaf,“ segir Hallbera Guðný Gísladóttir, landsliðskona í fótbolta sem nýverið gerðist atvinnumaður með sænska liðinu Piteå í Svíþjóð. Gríðarlegur kuldi hefur verið í Evrópu undanfarna daga og þar á meðal í Piteå sem er í norðurhluta Svíþjóðar.

„Við æfum sem betur fer inni en við fórum um helgina í bæinn Storforsa og ætluðum að fara á gönguskíði. En þar sem mælirinn sýndi 39 gráðu frost á laugardeginum þurftum við að halda okkur innandyra. Daginn eftir var aðeins hlýrra eða 30 stiga frost. Þá fórum við í göngutúr og ég var í föðurlandi, þrennum buxum, tveimur flíspeysum, dúnúlpu, lopasokkum og í öllum græjum en samt var ég að frjósa,“ segir Hallbera hlæjandi.

„Mér var samt aðallega kalt í andlitinu og eftir korters göngu úti byrjuðu augun eiginlega að límast saman því að augnhárin voru komin með svona ískrap.“

Hallbera er nýkomin til Piteå en hefur ekki náð að skoða bæinn sem skyldi vegna kuldans.

„Ég fer ekkert mikið út í þessum kulda, rétt hleyp út í súpermarkaðinn til þess að kaupa í matinn en það sem er samt gott við þetta veður er að oftast er alveg logn og sól, bara dáldið mikið kaldara en maður á að venjast,“ segir Hallbera sem bíður eftir sendingu sem á eftir að koma að góðum notum.

„Á morgun fer ég á pósthúsið að sækja lopapeysu sem mamma var að senda mér í póstinum,“ segir Hallbera Guðný en um 20 stiga frost var í Piteå í gær.- kh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×