Lífið

Þekktur upptökustjóri með Of Monsters and Men

Jacquire King ásamt hljómsveitinni Of Monsters and Men. Hann hefur unnið með hljómsveitum á borð við Kings of Leon og Modest Mouse, en er nú mættur til landsins til að taka upp með Of Monsters and Men.
Jacquire King ásamt hljómsveitinni Of Monsters and Men. Hann hefur unnið með hljómsveitum á borð við Kings of Leon og Modest Mouse, en er nú mættur til landsins til að taka upp með Of Monsters and Men. fréttablaðið/valli
„Tónlistin hefur komið auðveldlega og hljómar mjög vel. Við skemmtum okkur mjög vel,“ segir bandaríski upptökustjórinn Jacquire King.

King er staddur hér á landi og stýrir nú upptökum á nýjum lögum hljómsveitarinnar Of Monsters and Men. Einhverjum laganna verður mögulega bætt við plötuna My Head Is an Animal sem hljómsveitin sendi frá sér hér á landi í fyrra, en kemur út á heimsvísu á vegum útgáfurisans Universal í ár.

„Við ætlum að reyna að klára fimm lög og það hefur gengið mjög vel,“ segir King, sem býr í Nashville í Bandaríkjunum og hefur tekið upp með hljómsveitum á borð við Kings of Leon, Cold War Kids og Modest Mouse ásamt tónlistarfólki á borð við Noruh Jones og Tom Waits. Hann stýrði til að mynda upptökum á plötunni Only by the Night með Kings of Leon, sem hefur selst í milljónum eintaka um allan heim. En hvernig finnst honum að vera staddur á norður í Atlantshafi að vinna með ungri, íslenskri hljómsveit?

„Allar hljómsveitir sem hafa orðið stórar byrja einhvers staðar. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og ég nýt þess að dvelja á Íslandi,“ segir King. „Ég hef gaman af því að vinna með ungum listamönnum og hjálpa þeim að læra á plötugerðarferlið. Ég sýni þeim það sem ég kann og er hluti af ferlinu. Það er spennandi.“

Maureen Kenny hjá Universal-útgáfunni kynnti King fyrir Of Monsters and Men í október á síðasta ári. Hann hafði ekki heyrt um hljómsveitina, en varð að eigin sögn mjög áhugasamur um að taka að sér verkefnið fljótlega eftir að hann heyrði tónlistina. „Ég heyrði strax að þau væru hæfileikarík og vel spilandi. Þau voru búin að gera plötu sem ég hefði haft gaman að því að gera. Lögin eru góð og hljómsveitin flytur þau vel,“ segir hann. „Ástæðan fyrir því að ég vildi koma til Íslands var sú að þau gerðu plötuna sjálf og stóðu sig vel. Mér fannst mikilvægt að koma til þeirra og taka upp þráðinn þar sem þau skildu við hann, í staðinn fyrir að fá þau til Bandaríkjanna og gera allt öðruvísi. Ég vildi ekki að nýju lögin yrðu frábrugðin þeim sem eru á plötunni.“

Jacquire King dvelur á landinu í tvær vikur í viðbót, en segist ekki búast við að gera margt annað en að vinna með Of Monsters and Men. „Veðrið býður ekki upp á margt annað,“ segir hann í léttum dúr. „Ég dvel í miðbænum og þegar veðrið er í lagi fer ég í göngutúra. Ég fór í nýja tónlistarhúsið í gær sem er ótrúlega falleg bygging. Ég vona að ég komist meira út um næstu helgi.“atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×