Innlent

Grunur um heiftarlega hræeitrun

Hræeitrun getur oðið í heyi ef dautt smádýr er í því þegar það er verkað. 
Mynd úr safni.
Hræeitrun getur oðið í heyi ef dautt smádýr er í því þegar það er verkað. Mynd úr safni.
Sex hross drápust á bænum Eystra-Fróðholti í Landeyjum í fyrradag. Þetta voru fjögur folöld, ung hryssa og önnur eldri, allt vel ættaðir gripir. Getgátur eru um að dauði hrossanna stafi af svæsinni hræeitrun.

Ársæll Jónsson, bóndi á Eystra-Fróðholti, fór með eitt hrossið að Keldum þar sem það verður krufið og rannsakað. Niðurstöður eiga að liggja fyrir eftir viku til hálfan mánuð.

„Ef smádýr, svo sem fugl eða mús, liggja dauð í heyrúllu getur myndast rosaleg eitrun, að því er dýralæknir hefur tjáð mér,“ segir Ársæll. Hann hafði nýverið gefið 30 hrossum tvær heyrúllur og telur ýmislegt benda til að eitthvað af heyinu hafi ekki verið í lagi. „Ég sá að hrossin sex voru orðin veik og ætlaði að reyna að koma þeim heim undir læknishendur, en þau drápust á leiðinni. Það er oft erfitt að bjarga hrossum ef þau verða veik á annað borð.“

Ársæll kveðst hafa tekið heyið strax frá hrossunum, þar sem hann hafi grunað að í því leyndist eitrun. Hann var að koma frá því að gefa hrossunum, sem eftir lifðu, þegar Fréttablaðið ræddi við hann í gær og kvað hann þau hafa verið spræk og einkennalaus. „Ég verð bjartsýnni með hverjum deginum sem líður og allt virðist með eðlilegum hætti,“ segir Ársæll.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×