Innlent

Söfnun UNICEF til handa börnum á Sahel-svæðinu í Mið- og Vestur-Afríku fer vel af stað: Íslendingar hafa brugðist vel við neyðarkalli

Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi, segir Íslendinga hafa brugðist vel við ákalli frá samtökunum.
Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi, segir Íslendinga hafa brugðist vel við ákalli frá samtökunum.
„Söfnunin gengur vonum framar. Íslendingar hafa brugðist mjög vel við ákalli okkar og við erum mjög þakklát fyrir það,” segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi, um viðbrögð við neyðarkalli samtakanna. UNICEF hófu söfnun um allan heim 3. apríl síðastliðinn og verður söfnunarfénu varið til að hjálpa börnum í Vestur- og Mið-Afríku.

Ein milljón ungra barna á Sahel-svæðinu í Vestur- og Mið-Afríku er í bráðri lífshættu og gæti látið lífið næstu vikur ef engin hjálp berst.

Sigríður segir fólk hafa brugðist vel við neyðarkallinu. „Markmiðið er að safna eins miklu og við getum svo hægt verði að meðhöndla börn á Sahel-svæðinu sem eru lífshættulega vannærð,“ segir Sigríður, en um er að ræða mánaðarlangt átak á heimsvísu.

UNICEF rekur næringarmiðstöðvar víða á svæðinu þar sem börnin eru meðhöndluð og sýna tölur fram á að 95 prósent þeirra barna er hljóta meðhöndlun lifa af. Átta lönd á svæðinu glíma við afleiðingar þurrka og uppskerubrests og standa íbúar landanna frammi fyrir mikilli neyð.

„Okkur finnst gleðilegt að sjá og finna að fólk skuli skilja að þetta skiptir okkur öll máli og að það sé raunverulega hægt að koma þessum börnum til aðstoðar,” segir Sigríður.

Hægt er að styrkja söfnunina á heimasíðu samtakanna Unicef.is.- sm




Fleiri fréttir

Sjá meira


×